FSN keppir í Morfís í kvöld

6d9d3e08d6b48d8fe84a55a0d0a4d5d9Morfíslið FSN mætir liði MH í kvöld í æsispennandi kappræðum. Lið FSN er skipað þeim Ísól Lilju Róbertsdóttur, Jóni Grétari Benjamínssyni, Lenu H.F. Fleckinger Örvarsdóttur og Guðbjörgu Helgu Halldórsdóttur. Ísól og Jón Grétar koma frá Stykkishólmi. Þjálfari liðsins er Loftur Árni Björgvinsson.

Í Morfís (Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi) keppa skólar í rökræðum og er þeim gefið umræðuefni þar sem annað liðið mælir með en hitt á móti. Stig eru gefin fyrir rök, flutning, svörum við rökfærslum andstæðinga og hughrif dómara.

Æfingakappræður fóru fram á milli nemenda og kennara í FSN þriðjudaginn 17. janúar. Nemendur ræddu þar með ferðum til Mars en kennarar á móti. Kennarar rétt mörðu sigur í æfingaumferðinni en álitamál er hvort að það hafi verið sanngjarn sigur enda dómararnir skipaðir úr röðum kennara.

Í samtali segir Loftur að ungmennin hafi staðið sig með prýði. Þau eru tilbúin í slaginn og komin er nokkur reynsla á liðið. Í fyrra var lið FSN grátlega nálægt því að sigra lið ME. Nú munu þau mæta tvíefld til leiks, vongóð um gott gengi. Meirihluti liðsins er í stjörnufræðiáfanga sem vegur vonandi upp á móti meiri reynslu liðs MH.

Von er á miklum stuðningi Snæfellinga á viðureigninni en fyrir þá sem ekki komast er bent á að hægt verður að horfa á keppnina á Youtube.

MH hefur fjórum sinnum unnið Morfís, síðast árið 2007. Átta sinnum hefur lið skólans lent í öðru sæti.