Fundað um menningarstefnu

15102015-1Síðastliðið þriðjudagskvöld var haldinn fundur á Ráðhúsloftinu um menningarmál. Það var Safna- og menningarmálanefnd Stykkishólmsbæjar sem boðaði til fundarins, sem var öllum opinn og sérlegur gestur var Guðrún Jónsdóttir forstöðukona Safnahúss í Borgarnesi. Safnahúsið í Borgarnesi samanstendur af fimm söfnum:
Héraðsbókasafni Borgarfjarðar, Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar, Byggðasafni Borgarfjarðar, Náttúrugripasafni Borgarfjarðar og Listasafni Borgarness.
Safnahúsið heyrir beint undir byggðaráð sem er ígildi bæjarráðs hér í Stykkishólmi. Guðrún hefur verið forstöðukona frá árinu 2007. Guðrún kynnti safnastefnu Borgarfjarðar sem gerð var árið 2007 og er leiðarljós í safnastarfinu. Að hennar mati er nauðsynlegt að hafa safnastefnu til að vinna eftir, að öðrum kosti verði safnastarf mjög tilviljanakennt og jafnvel háð geðþóttaákvörðunum forstöðumanna. Stefnan var unnin í víðtæku samstarfi við íbúa, fyrirtæki og stofnanir á sínum tíma og með henni á að efla menningarlega vitund íbúa, styrkja innviði samfélagsins og hún hefur hagræn gildi fyrir samfélagið. Stefnan mælir með góðu og almennu aðgengi að menningu, mikilvægi miðlunar og fræðslu, styður við frumkvæði og listræna sköpun og vinnur með menningararf samfélagsins. Guðrún segir embættismenn (forstöðumenn) vera lykilpersónur í að fylgja svona stefnu eftir því sveitarstjórnarmenn hafi margt á sinni könnu og koma og fara amk á fjögurra ára fresti. Lykilatriðin í stefnunni eru samvinna, sérstaða, fræðsla og miðlun. Í starfi safna snýst um 75% starfsins um það sem enginn sér en það er miðlun, söfnun og varðveisla hin 25% er móttaka gesta og sýningarhald.
Í safnahúsi Borgarfjarðar, sem er menningarmiðstöð í héraði, er mikið ýtt undir miðlun upplýsinga um gengna Borgfirðinga.
Afkomendur, eldri borgarar og fleiri koma þannig mjög við sögu í heimildaöflun ýmist fyrir sýningar eða í tenglsum við skjöl eða muni sem koma til safnsins. Styrkur hússins er m.a. sá, að sögn Guðrúnar, að þar starfa öll þessi söfn saman t.d. sé það þróun safna víða um heim að staðsetja bókasöfn með öðrum söfnum.
Í máli Guðrúnar kom fram hversu mikilvægt væri að hafa héraðsskjalasafn og hvatti hún eindregið til þess að hér á Snæfellsnesi væri eitt slíkt. Í umræðum á eftir kom fram að árið 1990, þegar Stykkishólmur tók við Amtsbókasafni að setja átti á stofn héraðsskjalasafn sem því miður hefur ekki enn komist á fót. Guðrún taldi nokkuð öruggt að gögn sem fara ættu á þjóðskjalasafn færu ekki alltaf þangað heldur í ruslið nema héraðsskjalasafn væri til staðar því fólk gæti frekar hugsað sér að láta varðveita í nærumhverfinu sögulegar heimildir og verðmæt gögn.
Í umræðum á eftir var m.a. rætt um ólíkt eignarhald safna í Stykkishólmi þó rauði þráðurinn í safnastarfi hér í bæ sé sveitar-félagið sem tengir þau saman hvert á sinn hátt og hversu mikilvægt það væri að söfnin störfuðu saman. Fyrirhugað er að fara í áþekka vinnu fyrir Stykkishólm og var þessi fundur mjög gott innlegg í þær umræður.

sp@anok.is