Fyrsta skóflustungan tekin fyrir framtíðarhúsnæði Æðarseturs Íslands

448

Það ber til tíðinda þegar tekin er skóflustunga fyrir nýju húsnæði hér í Stykkishólmi, ekki síst þar sem um ræðir lóð í elsta hluta bæjarins. 1. nóvember s.l. var tekin fyrsta skóflustunga fyrir nýju húsnæði Æðarseturs Íslands á byggingarlóð við Frúarstíg 6. Húsnæðið sem byggt verður er merkt undir safnastarfsemi og sem íbúðarhúsnæði. Byggingin verður steypt fyrsta hæð undir safnastarfsemina og svo hæð og ris ofan á það, sem hýsir íbúðarhúsnæði en gólfflötur hússins er tæpir 100 fm. Þak er hallandi og kallast útlit hússins á við útlit húsanna í kring. Húsið verður klætt með standandi timburklæðningu. Skipavík er byggingaraðili hússins og strax s.l. föstudag voru komnar gröfur á staðinn til að grafa fyrir grunni. Gera varð óverulega breytingu í Skipulags- og byggingarnefnd á deiliskipulagi til að húsið yrði löglegt á lóðinni sem hefur verið samþykkt í bæjarráði og bæjarstjórn og er nú í grenndarkyningu.

Æðarsetur Íslands er í eigu Íslensks æðardúns ehf. en þar í fararbroddi eru feðginin Erla og Friðrik Jónsson sem rekið hafa fyrirtækið hér um árabil. Hreinsun og sala æðardúns er kjarninn í fyrirtækinu en nú verður til viðbótar rekið Æðarsetur Íslands hér í Stykkishólmi til frambúðar. Æðarsetrið opnaði í Norska húsinu fyrir rúmum 3 árum og var rekið þar í tvö ár. Sett var upp sýning um sögu dúnsins og meðhöndlun hans í sögulegu samhengi auk þess sem fræðslusýning um æðarvarpið, fuglinn og vágesti var komið á fót. Vörur sem tengdust æðarfugli voru einnig til sölu. Í nýju húsnæði verður sýning sett upp sem byggir á fyrrnefndum þáttum auk þess sem fyrirlestra- og móttökuaðstaða fyrir hópa verður í húsinu.

151

7 hópar sölufólks úr verslunum í Japan, sem selja vörur úr æðardúni frá Íslenskum æðardúni, heimsóttu setrið í Norska húsinu til að kynna sér æðarfuglinn, dúntekju og meðhöndlun æðardúnsins.

181

Jón Einar frá Háskólasetrinu hélt fræðslufyrirlestur um æðarfuglinn og að því loknu var hópunum boðið í siglingu með Sæferðum í Hvallátur til að skoða æðarvarp. Frá því að setrið kvaddi Norska húsið hefur það verið í geymslu en mun væntanlega á næsta ári flytja í nýtt og glæsilegt húsnæði steinsnar frá Norska húsinu og þar með bætist við safnaflóru Stykkishólms Æðarsetur Íslands. am