Georg Ólafsson heiðursborgari Stykkishólms

Á bæjarstjórnarfundi s.l. miðvikudag var samþykkt að gera Georg Ólafsson að heiðursborgara Stykkishólms.  Athöfn fór fram á Dvalarheimilinu daginn eftir þar sem Sturla Böðvarsson bæjarstjóri flutti ávarp og Hafdís Bjarnadóttir forseti bæjarstjórnar afhenti Georg heiðursskjal.  Bæjarstjórnarfulltrúar og fjölskylda Georgs var viðstödd ásamt gestum.

Myndir frá athöfninni:

Hér á eftir fer ávarp bæjarstjóra við athöfnina:

Kjör heiðursborgara

 

Undirrituð gera það að tillögu sinni að Georg Breiðfjörð Ólafsson Silfurgötu 13 Stykkishólmiverði kjörinn heiðursborgari Stykkishólmsbæjar. 

 

Georg Breiðfjörð Ólafsson er fæddur og uppalinn í Akureyjum á Skarðsströnd. Fæðingardagur hans er 26. mars 1909. Móðir hans var Ágústa Sigurðardóttir, fædd 2. ágúst 1884 að Ballará í Skarðshreppi, látin 9. janúar 1972 i Stykkishólmi. Húsfreyja í Akureyjum, Ögri við Stykkishólm og í Stykkishólmi. Faðir Georgs og eiginmaður Ágústu var Ólafur Magnús Sturlaugsson, fæddur í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd 15. mars 1885, látinn 25. október 1958 í Stykkishólmi. Bóndi í Akureyjum og Ögri en eftir það ullarmatsmaður í Stykkishólmi með meiru. Fjölskyldan flutti frá Akureyjum í Ögur 1927 og í Stykkishólm 1940.

Georg hefur því átt heima í Stykkishólmi í 88 ár. Eiginkona hans var Þorbjörg E. Júlíusdóttir, fædd í Bjarneyjum á Breiðafirði 25. apríl 1916, látin 5. janúar 1984. Húsfreyja og saumakona í Stykkishólmi. Þorbjörg var alin upp í Bjarneyjum fram á áttunda aldursár en eftir það á  Geirmundarstöðum í Skarðshreppi.

Georg og Þorbjörg eignuðust þrjá syni, Gylfa, Júlíus Braga og Ágúst Ólaf. Georg á fjögur barnabörn og tvö barnabarnabörn.

Georg lauk almennri skólagöngu á sinum tíma og gekk i farskóla. Kennari hans var Jóhannes úr Kötlum, skáld.

Georg stundaði almenn sveitastörf, var nokkur ár á vertíð í Grindavík sem landmaður, vann eitt sumar fyrir breska herinn i Hvalfirði en eftir það eingöngu við smíðar. Hann tók þátt í að byggja mörg einbýlishús í Stykkishólmi og vann jafnframt víða um sveitir við að reisa hlöður og útihús fyrir bændur. Georg starfaði við skipasmíðar um áratugi, bæði við viðgerðir og nýsmíði. Starfsferilinn endaði hann i skipasmíðastöðinni Skipavík árið 1984. Georg var eftirsóttur til vinnu, fyrir vandvirkni, handlagni og útsjónarsemi.

Georg vann alla tíð langan vinnudag, eins og aðrir í hans stöðu, en segist hafa gætt þess að vinna jafnt eða stöðugt og vinna sér létt án þess þó að vera að svíkjast neitt um. Þetta fjallaði fyrst og fremst um vinnulag og skipulag. Ýmsir vinnufélagar Georgs hafa haft það á orði að hann hafi hjálpað þeim og leiðbeint á fyrstu árum þeirra í slippnum og þóst heppnir að hafa unnið með honum, á það einnig við um suma verkstjóra. 

Meðal áhugamála Georgs voru spilamennska, einkum lomberog vist, en á yngri árum lék hann á munnhörpu. Georg var mikill fjölskyldumaður og vann við að búa fjölskyldunni í haginn í frítíma sínum, halda við húsi sínu, salta fisk og kjöt i tunnur, hengja upp grásleppu, ýsu, steinbít og lúðu, sviða hausa, búa til hnoðmör, smíða leikföng fyrir synina og fleira og fleira. Þegar Georg var á vertíð í Grindavík tók hann hárklippur sínar með sér og klippti vinnufélaga sina og aðra sem þess óskuðu. Georg hélt áfram að klippa eftir að hann flutti í Hólminn og var með fastakúnna, bæði úr bæjarfélaginu og einnig úr sveitinni. Aldrei tók hann neitt fyrir þetta og viðskiptavinunum boðið upp á kaffi og meðlæti að lokinni klippingu. Samkvæmt upplýsingum frá fjölskyldu Georgs hefur hann lifað hefðbundnu lífi alþýðufólks og borðað þennan hefðbundna íslenska mat, saltaðan, súran og reyktan, fremur lítið af grænmeti nema kartöflur og eitthvað af gulrófum og svolítið af káli. Fiskur var oft á boðstólum (mörgum sinnum í viku) og stundum selur, sjófugl og egg.

Langlífi hefur verið í ættinni en báðar ömmur Georgs urðu 95 ára. Móðuramman lést 1938 og hefur þetta verið mjög hár aldur á þeim tíma.

Svo sem að framan er getið  hefur Georg verið sómakær bæjarbúi sem hefur verið öflugur þáttandi í daglegu lífi og verið einn af þeim máttarstólpum samfélagsins sem ganga hljóðlátir til vinnu sinnar hvern dag og tryggja þannig að samfélagið blómstri.

Eins og að framan er getið  varð Georg Breiðfjörð Ólafsson 106 ára gamall 26. mars s.l.  Einn íbúi Stykkishólmsbæjar hefur áður náð þeim aldri en það var María Andrésdóttir sem var kjörin heiðursborgari 1959. Þegar María féll frá 3.september 1965 &nbsp
;var hún 106 ára og 43 daga gömul. Í dag er Georg  Breiðfjörð Ólafsson því sá íbúi í Stykkishólmi sem lengst hefur lifað.

Það er mat okkar undirritaðra að Georg Breiðfjörð Ólafssonverðskuldi nafnbótina heiðursborgari Stykkishólmsbæjar og leggjum við til að kjör hans fari fram á fundi bæjarstjórnar 13.maí 2015 og verði honum afhent heiðursborgaraskjalið við hátíðlega athöfn á Dvalarheimili aldraðra á uppstigningardag þann 14. maí 2015.

 

Stykkishólmi,  13. Maí 2015

Hafdís Bjarnadóttir forset bæjarstjórnar

Sturla Böðvarsson bæjarstjóri 

Lárus Ástmar Hannesson bæjarfulltrúi 

Ragnar M Ragnarsson bæjarfulltrúi

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir varabæjarfulltrúi

Ólafur Örn Ásmundsson varabæjarfulltrúi

Helga Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi