Gísli á Uppsölum á Dvalarheimili

Mynd: Facebook síða Dvalarheimilisins
Mynd: Facebook síða Dvalarheimilisins

Gamalkunnur félagi mætti á Dvalarheimilið í Stykkishólmi fyrir síðastliðna helgi. Var það enginn annar en Gísli á Uppsölum, eða öllu heldur Elfar Logi Hannesson í gervi Gísla. Hann ferðast nú um landið með leikverk um Gísla Oktavíus Gíslason, betur þekktan sem Gísla á Uppsölum. Elfar fór yfir sögu Gísla við góðar undirtektir íbúanna á Dvalarheimilinu.

Einbúinn Gísli varð landsmönnum kunnugur eftir Stikluþátt Ómars Ragnarssonar og átti sinn stað hjá þjóðarsálinni.

Höfundar leikverksins eru Bílddælingarnir Elfar Logi Hannesson sem jafnframt leikur titilhlutverkið og Þröstur Leó Gunnarsson sem leikstýrir. Er þetta verk það fertugasta sem Kómedíuleikhúsið setur upp.