Gönguferð um slóðir Bárðar Snæfellsáss

Laugardaginn 15. ágúst býður þjóðgarðurinn Snæfellsjökull upp á gönguferð um slóðir Bárðar Snæfellsáss á Djúpalónssand og í Dritvík. Farið verður út í hellinn Tröllakirkju sem eingöngu er hægt að fara í á stórstraumsfjöru, líkt og verður á laugardaginn.
Lagt verður af stað kl. 12:00 frá bílastæðinu við Djúpalónssand. Sagnamaðurinn Sæmundur Kristjánsson leiðir ferðina en Monika C. Kapanke mun þýða yfir á pólsku. Pólverjar eru hvattir til að fjölmenna í gönguna og kynnast fegurð og sögu svæðisins.
Bárður Snæfellsás setti upp skip sitt í Dritvík og hann og menn hans blótuðu sér til heilla í Tröllakirkju. Merkar minjar eru í Dritvík en þar var ein stærsta verstöð landsins áður fyrr. Sæmundur hefur frá mörgu að segja en ótal sögur og sagnir tengjast svæðinu. Minnst verður sérstaklega þeirra kvenna sem reru frá Dritvík og á það vel við á 100 ára afmælisári kosningarréttar kvenna á Íslandi.
Ferðin tekur um 3 klukkutíma og er ekkert þátttökugjald. Allir velkomnir.
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull