Héraðsnefnd Snæfellinga lögð niður

Ákveðið hefur verið að leggja niður Héraðsnefnd Snæfellsness en stofna Byggðasamlag Snæfellsness í staðinn.

Héraðsnefndin var stofnuð árið 1989 og tók hún við störfum sýslunefndar. Tilgangur hennar var að annast sameiginleg verkefni sem varða öll aðildarsveitarfélögin (Stykkishólmsbær, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit). Nefndin tilnefnir og/eða kýs fulltrúa í ýmsar nefndir, ráð og stjórnir s.s. Breiðafjarðarnefnd og stjórn Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla. Sameiginleg verkefni aðildasveitarfélagana falla því undir samlagið eftir stofnun þess, verkefni sem eru í gangi auk framtíðarverkefna. Gert er ráð fyrir að þetta muni efla samstarf og gera stjórnsýslu öflugri með betri yfirsýn undir einni stjórn.

Framkvæmdaráði Snæfellinga hefur verið falið að gera stofnsamning fyrir Byggðasamlagið og verður hann tekinn fyrir á sameiginlegum fundi sveitarfélaga á Snæfellsnesi eigi síðar en 15. desember 2016.