Hringtenging ljósleiðara

Milli jóla og nýárs árið 2014 rofnaði ljósleiðari í Kaldá sem olli því að Snæfellsnes varð sambandslaust í nánast sólarhring. Ekki var hægt að versla, taka bensín eða fara á netið á þeim tíma. Snæfellsnes var tengt landsneti fjarskipta með einfaldri ljósleiðaratengingu.

Innanríkisráðuneytið auglýsti eftir upplýsingum um markaðsáform fjarskiptafyrirtækjanna um lagningu og rekstur ljósleiðarahringtengingu fyrir Snæfellsnes og Vestfirði. Fjarskiptasjóði var falið að styrkja framkvæmdina reyndist þess þörf.

Var ákveðið að ráðast í þær framkvæmdir til þess að auka öryggi fjarskipta á svæðinu og koma í veg fyrir að annað eins ástand skapist og gerðist í lok árs 2014.

Í auglýsingu Ríkiskaupa skal verkinu lokið eigi síðar en árið 2016.

Samið var við fyrirtækið Orkufjarskipti hf. um hringtenginguna. Kostnaðaráætlun var upp á 86 millj. króna og bauð Orkufjarskipti hf. 66 millj. kr.

Í verkinu felst lagning á stofnstreng ljósleiðara á milli Hörðubóls og Álftafjarðar með möguleika á heimtaugum að byggingum á leið strengsins. Fjarskiptasjóður veitti styrk til verksins þar sem það var ekki gert á markaðslegum forsendum.

Í svari við fyrirspurn segir Bjarni M. Jónsson, forstjóri Orkufjarskipta hf., að búið sé að leggja strenginn og bíði það afgreiðslu að hægt verði að koma honum í gagnið. Enn eigi eftir að mæli leiðnitöp í strengnum og ekki er búið að ganga frá lokauppgjöri þannig að gjaldskrá liggur ekki klár fyrir. Fræðilega séð er þetta þó klárt og ætti að líta dagsins ljós fyrir lok árs 2016 fari allt að óskum.

Vinna við verkið var mikil og að mörgu þurfti að huga. T.d. þarf að haga greftri strengsins m.t.t. landeigenda og ýmis ófyrirséð atvik geta komið upp s.s. erfiður jarðvegur, klappir og vond veðurskilyrði sem hægja á vinnu.

Hann kveðst sammála því að nú á dögum sé það nánast lífsnauðsynlegt að hafa trausta nettengingu.

Ættu íbúar á Snæfellsnesi því nú að geta sofið rólegir, vitandi það að ástandið sem skapaðist í lok árs 2014 mun tæplega endurtaka sig.

Orkufjarskipti hf. var stofnað árið 2011 og er í eigu Landsvirkjunnar og Landsnets.