Hvað á að horfa á um jólin?

Þó svo að hátíðisdagarnir raðist nú þannig að fjórir virkir dagar verða á milli hátíða er ekki þar með sagt að allir mæti í vinnu þá daga.

Eflaust verða margir á ferðinni og heimsækja vini og ættingja og mæta í aragrúa af jólaboðum.

En til eru þeir sem setjast í sófann eftir pakkaflóðið og standa aftur upp á nýju ári. Ekki verður það fordæmt hér, enda er þetta einmitt tíminn þar sem afsakanlegt er að liggja á meltunni og stara í tómið.

Hér er að finna handhægan lista fyrir þá sem ekki verða á ferðinni yfir hátíðirnar. Listi fyrir þá sem vilja koma sér vel fyrir fyrir framan sjónvarpið og njóta þess sem það hefur upp á að bjóða. Listi fyrir þá sem ekki fá bækur í jólagjöf en vilja samt sem áður drekka í sig skáldskap.

Margt af þessu er gamalt efni en það má vissulega rifja upp kynni. Það er ekkert jólalegt að finna þarna og ekki er alltsaman ætlað börnum. Engu að síður er þetta tilvalið í raðáhorf þar sem þættina má finna í heild sinni á streymisveitunni Netflix sem borgaði ekki krónu fyrir birtingu þessa lista.

Listinn er í handahófskenndri röð.

Þáttaraðir:

  1. Planet Earth/Frozen Planet/Life – Öll fjölskyldan getur legið yfir þessum fróðlegu þáttum og dáðst að glæsilegum náttúrulífsmyndum á meðan það lærir eitthvað nýtt í leiðinni.
  2. Shameless (US) – Kolsvartur húmor í bland við átakanlegt fjölskyldudrama. Eftir þetta er ekki hægt að kalla bandaríska þáttagerðarmenn teprur.
  3. Narcos – Sagan af uppgangi kókaínbarónsins Pablo Escobar. Oft er sannleikurinn lyginni líkastur. Saga þjóðar í heljargreipum glæpamanna.
  4. Orange is the New Black – Gaman/spennu/drama sem byggðir eru á reynslu Piper Kerman sem sat inni í kvennafangelsi fyrir peningaþvott. Ádeila á fangelsismál í Bandaríkjunum en um leið bráðfyndnir og skemmtilegir þættir.
  5. Breaking Bad – Þátturinn sem allir eru að segja þér að horfa á og hafa gert ótal sinnum. Óaðfinnanlegir, allt frá leik til hljóðvinnslu.
  6. The Crown – Fyrstu ár Elísabetar Englandsdrottningar gerð góð skil. Hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda. Ekki eins og hvert annað breskt búningadrama.
  7. BoJack Horseman – Teiknimyndaþættir um hestinn BoJack sem var stórstjarna á 10. áratugnum en er nú útbrunninn og innantómur. Skemmtilegt skop um fáránleika dýrkunar á Hollywood-stjörnum.
  8. House of Cards – Spilaborgin hefur nú verið sýnd á RÚV. Fylgist með Frank og Claire Underwood klífa valdastigann með klækjum og brögðum.
  9. Cosmos – Sumir segja að Neil deGrasse Tyson sé Ævar vísindamaður Bandaríkjanna. Fræðandi þættir um heim vísindanna, allt frá smæstu atómum til himintunglanna. Allt framsett á aðgengilegan hátt fyrir unga sem aldna. Endurgerð samnefndra þátta Carl Sagan frá áttunda áratugnum.
  10. Daredevil/Jessica Jones/Luke Cage – Ofurhetjumyndir eru líklegast búnar að ná hæstu hæðum. Þessir þættir tengjast beint og óbeint ofurhetjumyndunum frá Marvel og gefa áhorfendum innsýn í daglegt líf fólks sem hrærist í heimi ofurhetja.