Hvernig verður framhaldið?

IMG_7277Nú þegar nokkrar vikur eru liðnar frá því bókasafnshúsið við Hafnargötu 7 var selt er rétt að fara yfir stöðuna. Frá því meirihluti bjarstjórnar Stykkishólms, bæjarfulltrúar H – listans, sameiginlegs framboðs Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks auk óháðra, samþykktu að ganga að tilboði Marz sjávarafurða í húsið hafa vaknað spurningar sem rétt er að velta upp.
Á þeim bæjarstjórnarfundi sem salan kom til afgreiðslu kunngjörðu fulltrúar H – listans, óvænt, öðrum bæjarfulltrúum að nýtt bókasafn yrði risið í maí árið 2017. Að vísu er ekki búið að ákveða hvar við skólann bókasafnið á að rísa, hversu stórt það á að vera, hvað það mun kosta auk þess sem ekki hefur verið gerð úttekt á mögulegri fjárfestingargetu bæjarins á næstu árum.
Það er því ljóst og hefur verið staðfest með svörum við spurningum mínum til bæjarráðs að Stykkishólmsbær mun leigja Hafnargötu 7 af nýjum eigendum fram til 2017 og borga leigu í eitt ár eða frá 1. maí 2016 til 2017. Leigan verður kr. 405.000.- á mánuði eða tæpar 5 milljónir á ári.
Þessi staða er undarleg þar sem eigendur Bókaverzlunar Breiðafjarðar buðu Stykkishólmsbæ til viðræðna um samstarf eða yfirtöku á rekstri Amtbókasafnsins. Ekki var orðið við þeirra bón um viðræður af neinu tagi. Í umræðum um þetta ágæta og opna tilboð kom meðal annars fram að mögulegt væri að leigja húsið eða hluta af stækkuðu húsi fyrir bókasafn. Bæjarfulltrúum H–lista töldu ekki rétt að opna á neinar viðræður í þessu skyni þar sem með því væri verið að breyta ferlinu og yrði það því að hefjast að nýju með breyttum forsendum. Nú er samt frágengið að húsið verður leigt af kaupandanum í það minnsta út apríl 2017. Það samkomulag þótti ekki breyting á forsendum!!!
Við hjá L-listanum höfum látið gera lögfræðilega stjórnsýsluúttekt á söluferlinu og munum taka það til umfjöllunar á næstunni.
Svo er spurning hvort hið nýja bókasafn sem ekki er nákvæmlega vitað hvar mun rísa verði vígt með ræðum og blómaskreytingum vorið 2017.
Ef ekki, er eðlilegt að spyrja „Hvernig verður framhaldið?“ Verður leigt áfram af nýjum eigendum á 5 milljónir á ári, eða hvað? Eru það breyttar forsendur?
Þessi áherslubreyting Bæjarfulltrúa H–listans að setja bókasafnsbyggingu í forgang breytir að sjálfsögðu fjárfestingar-áætlun Stykkishólmsbæjar.
Það verður afar forvitnilegt að fylgjast með framvindu þessara mála hjá bæjarfulltrúum H–listans en þó ákveðinn léttir að hætt var við með öllu að ráðast í kaup á gömlu Trésmiðjunni.
Svona handahófskennd og stefnulaus vinnubrögð geta þó ekki skilað góðri niðurstöðu til lengri tíma.
Lárus Ástmar Hannesson, oddviti L-Listans