Innblástur í Stykkishólmi

KÍTÓN – Konur í tónlist eru félaga-samtök kvenna sem starfa að tónlist. Samtökin hafa staðið fyrir tónsmiðjum á landsbyggðinni og hefur félagskonum gefist tækifæri til að sækja um í þær.

Í ár eru 8 vaskar konur hér í Stykkishólmi að semja tónlist. Stykkishólms-Pósturinn fór í morgunkaffi til þeirra í vikunni og kom þá í ljós að þær sem valdar voru í tónsmiðjuna hér þekktust ekkert fyrir en voru hæstánægðar með viðkynnin og samstarfið.

Þær koma úr ýmsum áttum og eru með ólíka menntun og bakgrunn. Sumar þeirra hafa starfað lengi í tónlist aðrar gefið út plötu og svo mætti áfram telja. Þær vinna saman í pörum og segja það krefjandi að vinna allan daginn að tónsmíðum og sem flytja á nokkrum dögum síðar! Þetta sé mjög lærdómsríkt og umhverfið frábært.

Á miðvikudegi höfðu nokkrar tónsmíðar fæðst og voru þær fullar tilhlökkunar að flytja tónlistina á föstudaginn á Hótel Stykkishólmi. Innblásturinn er Stykkishólmur, nágrennið, veðrið, fólkið og fleira.
Að þeirra sögn verður a.m.k. eitt lag sérstaklega tileinkað Stykkishólmi á tónleikunum á föstudaginn.