Jafnréttisvika í Grunnskólanum í Stykkishólmi

Í Grunnskólanum í Stykkishólmi leggja nemendur áherslu á jafnréttismál þessa vikuna. Þ.e.a.s. meira en venjulega. Um er að ræða jafnréttisviku þar sem nemendur læra um jafnrétti kynjanna. Þetta er í annað skipti þar sem ein vika er helguð jafnréttismálum en í fyrra var sú fyrsta og þótti hún takast vel. Þá var ráðist í það að búa til jafnréttisáætlun sem finna má á heimasíðu skólans.

Drífa Lind Harðardóttir, deildarstjóri, segir að lögð sé áhersla á að starfsfólk og nemendur séu meðvitaðri um jafnrétti. Kennarar útbúi verkefni tengd jafnrétti í víðu samhengi sem skapi miklar umræður í kennslustofu. Vangavelturnar sem eiga sér stað í þessari vinnu eykur vitund nemenda á kynjajafnrétti og staðalímyndum samtímansIMG_4507.

Sem dæmi má nefna að nemendur í 3. bekk fengu myndir sem þau áttu að flokka eftir kynjabundnum hlutverkum/hlutum. Umræður sköpuðust hjá nemendum og á endanum sáu þau að myndirnar gátu vissulega passað í sameiginlegan flokk og átt við bæði kynin.

Spurð út í skoðun sína á jafnréttisvitund nemenda í dag segir Drífa að hún sé misjöfn hjá okkur öllum: „Jafnréttisvitund okkar er mjög misjöfn og á það líka við um nemendur. Það sýnir sig vel að samfélagsmiðlar og veraldarvefurinn hefur gríðarleg áhrif á jafnréttisvitundina og er því afar mikilvægt að fylgjast vel með því sem nemendur miða sig við. Það fer mikið eftir aldri hversu vel að sér nemendur eru í jafnrétti. Á yngri stigum okkar virðast nemendur vera ágætlega vel að sér í þessum málum og sýna áhuga. Það er ákveðinn aldur á unglingastigi sem hefur töluvert minni áhuga á að velta jafnrétti fyrir sér og stendur í raun og veru á sama um hvernig lífið rúllar í lífsgæðakapphlaupum og brengluðum fyrirmyndum. Svo á móti er annar aldur á unglingastigi sem hefur mikinn áhuga á þessu málefni og hefur skoðanir á öllu sem við kemur lífinu og samtímanum og langar að hafa áhrif.”

Spurð að því sama segir Berglind Axelsdóttir, skólastjóri, að við eigum enn langt í land hvað jafnrétti varðar. Hún væri til í sjá meiri mun á jafnréttisvitund nemenda í dag miðað við nemendur sem á undan hafa verið. Við þurfum á öllum tímum að vera meðvituð um að vinna með jafnrétti kynjanna og jafnrétti í sinni víðustu mynd.