Jólin taka enda

Áramótabrenna í Snæfellsbæ. Mynd úr Bæjarblaðinu Jökli.
Áramótabrenna í Snæfellsbæ. Mynd úr Bæjarblaðinu Jökli.

Jólin taka formlegan enda á þrettándanum, föstudaginn 6. janúar nk. þegar Kertasníkir snýr aftur heim til fjalla.

Björgunarsveitir munu selja flugelda sem ekki seldust fyrir áramótin þannig að skotglaðir geta fengið sína útrás fyrir sprengingar og ljósadýrð um leið og þeir styrkja starf björgunarsveitanna. Sala flugelda er ein helsta tekjulind sjálfboðastarfsins.

Einstaka sinnum hefur verið brenna á þrettándanum í Stykkishólmi en ekki hefur myndast hefð fyrir þrettándagleði og verður ekki breyting þar á í ár.

Grundfirðingar munu kveðja jólin á þrettándanum í Hrafnkelsstaðabotni í Kolgrafafirði kl. 18. Á staðnum verður brenna auk flugeldasýningar í boði björgunarsveitarinnar Klakks. Foreldrafélag Grunnskólans býður upp á heitt súkkulaði og aldrei að vita nema álfar heilsi upp á gesti.

Í Ólafsvík bjóða Lions-klúbbar þar í bæ upp á brennu og flugeldasýningu kl. 18. innan við félagsheimilið á Klifi. Gengið verður þangað frá Pakkhúsinu í fylkingu með álfakóngi og -drottningu auk álfameyja og ýmissa púka.