Kennarar gengu út

Lítil bjartsýni er í kjaraviðræðum hjá grunnskólakennurum hér í bæ sem hafa verið samningslausir síðan í sumar. Tvívegis hafa grunnskólakennarar fellt samninga. Trúnaðarmaður kennara í Grunnskólanum í Stykkishólmi Steinunn Magnúsdóttir, segir í samtali við blaðamann að mikil þreyta sé komin í mannskapinn vegna samningsleysisins. Það er skoðun kennara að laun þeirra séu ekki metin að verðleikum m.t.t. menntunar.

Til að mótmæla ástandinu gengu kennarar út þann 15. nóvember kl. 15. Aðgerðirnar höfðu engin bein áhrif á kennslu þar sem henni var lokið á þeim tíma en ákveðið var að hafa enga aukavinnu eftir kl. 15.

Uppsagnir hafa ekki verið ræddar alvarlega en hafa þó verið nefndar. Nokkur ótti um atvinnuöryggi ræður þar ferðinni. Stykkishólmur er lítið samfélag og ekki alls víst að hægt sé að stökkva í önnur störf í bænum. Þá eru kennarar ekki endilega tilbúnir að flytja úr bænum fyrir önnur atvinnutækifæri því hér vilji þeir vera.

Steinunn tekur fram að mikill munur sé á aðstæðum kennara úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu. Hér í bæ sé hlustað á kennara og mark tekið á þeirra sjónarmiðum og vinnuaðstaða góð. Mannauður skólans er góður en kennarar eru orðnir langþreyttir á samningsleysi og grunnlaunum. Á höfuðborgarsvæðinu eru t.d. dæmi um að kennarar séu einir með heilan bekk án stuðnings í skólastofu.

Fyrst og fremst líta grunnskólakennarar í Stykkishólmi á útgönguaðgerðirnar sem samstöðu við kennara í landinu. Nú bíði þau og voni eftir farsælli niðurstöðu, þrátt fyrir litla bjartsýni.

Í síðustu viku færðu kennarar Sturlu Böðvarssyni bæjarstjóra ályktun og undirskriftalista þar sem þau kröfðust „tafarlausra aðgerða og stuðnings frá sveitarfélaginu” eins og segir í ályktuninni. Einnig kemur þar fram að launaþróun hafi ekki verið í takt við aukið álag og kröfur.

Sturla tók fram að í bænum væru góðir og vel menntaðir kennarar og að Stykkishólmsbær leggi meira til reksturs skóla af tekjum sveitarfélagsins en meðal sveitarfélagið gerir. Þá sagði hann bæjaryfirvöld vilja tryggja að kennarar fái góð laun og til þess þurfi sveitarfélögum að vera tryggðar tekjur til að standa undir rekstri góðra skóla.