Kjaramál kennara

Kennarar í Ráðhúsinu
Kennarar í Ráðhúsinu

Í vikunni kom fram að lítil endurnýjun sé í kennarastéttinni. Spilar þar inn í mikil umræða um slæm kjör kennara og lengingu náms til kennararéttinda. Fólk virðist ekki tilbúið að fara í 5 ára háskólanám til þess að útskrifast með réttindi sem bjóði svo lág kjör.

Nú eru grunnskólakennarar samningslausir en þeir felldu síðustu tvo kjarasamninga lagðir voru fram. Samkvæmt frétt RÚV er Ólafur Loftsson, formaður samninganefndar, vongóður að nýr samningur líti dagsins ljós á næstu dögum.

Á kaffistofu GSS eru kjaramál dagleg umræða. Kennarar þar eru ekki sáttir við stöðu sína, frekar en aðrir kennarar hér á landi. Mikill hugur er í kennurum og má segja að nýjasta útspil kjararáðs hafi fyllt mælinn þegar það samþykkti að hækka laun kjörinna fulltrúa. Bætist það ofan á viðvarandi samningsleysi og ætla kennarar því ekki að gefa eftir í þetta sinn.

Sturla Böðvarsson tekur við undirskriftunum
Sturla Böðvarsson tekur við undirskriftunum

Grunnskólakennarar mættu í Ráðhúsið í Stykkishólmi og færðu Sturlu Böðvarssyni, bæjarstjóra, ályktun. Ekki gátu allir kennarar mætt þar sem nokkrir voru við kennslu. Bæjarstjóri tók við ályktuninni og sýndi skilning á málefninu. Hann tók einnig fram að það væri samninganefndarinnar, ekki bæjarfélagsins, að komast að niðurstöðu og hann myndi koma þessu á framfæri. Tók hann fram að mikilvægt væri að kennarastéttin væri sátt við kjör sín og treystir því að svo verði. Í Stykkishólmi eru frábærir skólar með góða og vel menntaða kennara og leggur Stykkishólmur meira til reksturs skólanna af tekjum sveitarfélagsins en meðal sveitarfélagið og er staðan því hlutfallslega góð hvað það varðar. Bæjaryfirvöld vilja tryggja að kennarar fái góð laun og vilja að sveitarfélögunum verði tryggðar tekjur til þess að standa undir því að reka góða skóla.

Jafnframt því að krefjast bættari kjara vildu kennarar sýna samstöðu með kennurum í öðrum bæjarfélögum þar sem staðan væri verri. Voru þau sammála um að staðan í Stykkishólmi væri ekki jafn slæm og í Reykjavík t.a.m. sé litið til vinnuálags. Þar, auk annarsstaðar, væri minna um stuðning í skólastofum sem dæmi og standa kennarar þar oft einir uppi með mikinn fjölda nemenda.

Hér má sjá ályktun kennara Grunnskólans í Stykkishólmi í heild sinni:

„Kennarar í Grunnskólanum í Stykkishólmi eru orðnir langþreyttir á stöðu mála í okkar kjarabaráttu og ekki lægði öldurnar þegar ákvörðun kjararáðs lá fyrir. Hvernig sem það mál kemur til með að enda þá krefjumst við tafarlausra aðgerða og stuðnings frá sveitarfélaginu.

Álagið í okkar starfi hefur aukist gríðarlega og sinnum við mörgum mikilvægum þáttum auk kennslunnar sjálfrar. Launaþróun okkar hefur ekki verið í samræmi við þær auknu kröfur sem gerðar eru til stéttarinnar.

Það er því skýr krafa okkar að laun kennara hækki í takt við það starf sem unnið er og mikilvægi þess.”

Undir þetta rita kennarar Grunnskólans.