Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Koma á öllu kurli til grafar

Á bæjarráðsfundi þann 12. janúar sl. var til umsagnar áætlun frá umhverfis- og auðlindaráðherra um dekkjakurl á leik- og íþróttavöllum. Í áætluninni er ráðgert að skipta út kurlinu fyrir hættuminni efni.

Alþingi ályktaði 2. júní sl. að banna notkun dekkjakurls á leik- og íþróttavöllum. Í kjölfarið var umhverfis- og auðlindaráðherra, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun, gert að gera áætlun sem miðaði að því að skipta út kurlinu fyrir annað efni á þeim völlum þar sem það væri að finna.

Gert er ráð fyrir því að verkinu verði lokið árið 2026.

Dekkjakurlið sem nú er að finna t.d. á sparkvellinum við Sundlaug Stykkishólms inniheldur hættuleg efni í litlu magni samkvæmt frétt á síðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Umhverfisstofnun bendir þó á að rannsóknir hafi ekki sýnt að kurlið valdi heilsufarslegum skaða.

Í ályktun Þórarins Guðnasonar, hjartalæknis og þáverandi varaformanns Læknafélags Íslands, frá árinu 2010 segir hann að dekkjakurl innihaldi krabbameinsvaldandi efni og önnu hættuleg efni sem reynst geta hættuleg börnum. Þar bendir hann einnig á að ýmis nágrannalönd hafi takmarkað notkun þess.

Unnið er að útfærslu verkefnisins og stefnt að því að losa kurlið af sparkvellinum.