Kór í ferðahug

Kór Stykkishólmskirkju hefur s.l 3 ár stefnt að söngferðalagi til Ungverjaldns. Nú er svo komið að kórinn fer utan 18. júní n.k. alla leið til höfuðborgar Ungverjalands, Budapest. Hópurinn telur um 40 manns með mökum og hefur skipulagning ferðarinnar staðið yfir frá því fyrir jól og dagskráin nánast smollin saman. Efnisskráin, sem er blanda af kirkjulegri tónlist og ungverskri og íslenskri þjóðlegri tónlist hefur verið á æfingadagskrá kórsins frá því síðasta vetur. Haldnir verða tónleikar í Budapest og við Balatonvatn auk þess sem sungið verður við messu í Budapest. Mikil tilhlökkun er í kórfólkinu enda hefur hópurinn lagt hart að sér í fjáröflunarvinnu til að ferðin verði að veruleika. Fararstjórar í ferðinni verða þær Judit Rán Esztergál og Maríanna Csillag, en Maríanna starfaði á St. Fransiskusspítalanum hér í nokkur ár og báðar tala þær íslensku og ungversku reipbrennandi og þekkja vel til Íslendinganna og áfangastaðarins.
Í þakklætisskyni fyrir stuðning bæjarbúa og fyrirtækja við Kór Stykkishólmskirkju býður kórinn til tónleika í Stykkishólmskirkju föstudaginn 5. júní kl. 20 þar sem flutt verður brot úr dagskránni sem farið verður með til Ungverjalands. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana og allir velkomnir.
sp@anok.is