Kór Stykkishólmskirkju heiðraður

Mynd:Eyþór Benediktsson
Mynd:Eyþór Benediktsson

Kirkjukór Stykkishólmskirkju og stjórnendur hans hlutu heiðursviðurkenningu frá bæjarstjórn Stykkishólms við opnunarhátíð Norðurljósahátíðarinnar 20. október sl.

Í ávarpi frá Hafdísi Bjarnadóttur, forseta bæjarstjórnar, segir að ekki sé hægt að horfa framhjá hlutverki kórsins í blómlegu tónlistarlífi bæjarins. Hún sagði jafnframt að kórfélagar sinntu óeigingjörnu starfi sem allir bæjarbúar njóti og deili í gleði og sorg.

„Á þessum tímamótum þótti bæjarstjórn Stykkishólms því vel við hæfi að heiðra núverandi og fyrrverandi meðlimi kórs Stykkishólmskirkju sem og stjórnendur fyrir þeirra framlag til menningarmála bæjarins. Er það gert með sérstakri samþykkt bæjarstjórnar sem allir bæjarfulltrúar standa að.”

Formaður kórsins, Anna Melsteð og söngstjórinn Lászlo Petö tóku við viðurkenningunni fyrir hönd kórsins. Með viðurkenningunni fylgdi styrkur upp á 500.000 kr. sem nýttur verður til þess að efla kórstarfið.