Körfur fléttaðar

IMG_1677Í Stykkishólmi er skipulagt félagsstarf aldraðra mánudaga til fimmtudaga og er það úr mörgu að velja. Nýlega var bryddað upp á þeirri nýjung að kenna körfugerð. Það er Hrafnkell Alexandersson sem býr í þjónustuíbúðum aldraðra við Dvalarheimilið sem sér um kennsluna. Kennslan er opin íbúum í þjónustuíbúðunum, heimilisfólki á Dvalarheimilinu og þeim sem áhuga hafa. Sífellt fjölgar því nú eru hóparnir orðnir tveir og kennt er í setustofunni á annarri hæð. Hlutirnir sem gerðir eru í kennslunni eru til sölu á Dvalarheimilinu og er um að gera að setja sig í samband við Dvalarheimlið hafi fólk áhuga á að taka þátt í kennslunni eða kaupa muni. Allur ágóði af sölu handverksins er varið í efniskaup fyrir frekari verkefni og einnig má geta þess að ýmsir aðrir hlutir eru til sölu. Hægt er að skoða handverk íbúa á Facebooksíðu Dvalarheimlisins.

frettir@snaefellingar.is