Kvennafrídagur

kvenrettindadagur-siggaloa24. október hefur fest sig í sessi sem kvennafrídagurinn þar sem konur leggja niður störf til þess að berjast fyrir jöfnum kjörum karla og kvenna. Það var árið 1975 sem hann var fyrst haldinn og talið er að um 25.000 konur hafi safnast saman á Lækjartorgi til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna til þjóðfélagsins. Meðaltekjur kvenna eru rétt rúm 70% af meðaltekjum karla í dag og eru þær því búnar að vinna fyrir launum sínum eftir 5 klst. og 38 mín. miðað við vinnudag frá kl. 9-17. Þess vegna voru konur hvattar í ár að leggja niður störf kl. 14:38.

Leikskólakennarar í Stykkishólmi, sem eru eingöngu konur, buðu kvenkyns kennurum úr Grunnskólanum í kaffi og með því. Skiptust leikskólakennarar á að fara í kaffi þar sem ekki var hægt að skilja börnin eftir án umsjónar. Vilji var hjá leikskólakennurum að leggja niður störf og sýna samstöðu en ekki stóð það til boða að hafa leikskólann án starfsfólks á meðan börn voru inni.

Á kaffifundinum spjölluðu konurnar um jafnréttismál og kom á daginn að þrjár þeirra hefðu tekið þátt í aðgerðunum á Lækjartorgi árið 1975. Upp kom sú hugmynd að skunda að ári á Olís í kaffitímanum til að kynjajafna aðeins kaffitímann þar, enda heyrir það til undantekninga að kona mæti þangað í kaffi yfir mesta háannatímann.