Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Litrík helgi

Skotthúfuhátíð var haldin í Stykkishólmi sl. helgi. Dagskrá var í Norska húsinu, Vinnstofu Tang & Riis, gömlu Stykkishólmskirkju og Eldfjallasafninu. Prúðbúið fólk og eldsmiðir að störfum við Leir 7 settu sterkan svip á bæinn þessa daga og svo kom glæsilegt skemmtiferðaskip á sunnudeginum að bryggju. Á föstudagskvöldinu voru tónleikar í gömlu kirkjunni þar sem flutt var tónlist fyrri tíma og átti sú dagskrá einkar vel við í kirkjunni. Þrír fyrirlestrar voru haldnir í tengslum við Skotthúfuna og allir mjög áhugaverðir. Fríða Björk Ólafsdóttir þjóðfræðingur fjallaði um klæðnað kvenna þegar þær fengu kosningarétt, samhliða þeim fyrirlestri var ljósmyndsýning á myndum Ljósmyndasafns Stykkishólms í gömlu kirkjunni, um sama efni. Í Eldfjallasafninu fjölluðu Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur og faldbúnings-fræðingur um móðuharðindin og tengdu á skemmtilegan hátt við þróun íslenska faldbúningsins. Boðið var upp á pönnukökur í Norska húsinu auk þess sem gullsmiðurinn Helga Ósk Einarsdóttir sýndi víravirki. Í Vinnustofunni í Tang & Riis var opið hús og um kvöldið kvöldvaka þar sem Heddý, Jón Svanur og Pétur Húni skemmtu gestum. Hulda H. Sigurðardóttir bar sigur úr býtum í Skotthúfukeppninni og fékk að launum glæsileg verðlaun frá Bókaverzlun Breiðafjarðar. Veitingastaðurinn Skúrinn opnaði um helgina og var mikið að gera þar alla dagana. Fleiri myndir af hátíðinni er að finna á Facebook síðu Skotthúfunnar.
sp@anok.is