Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Miðstöðvar og mangarar í Norska húsinu

norska
Valgerður Óskarsdóttir höfundur handrits og Hjördís Pálsdóttir forstöðukona Norska hússins
norskaveitingar
Boðið var upp á veitingar við opnunina

Sýningin Miðstöðvar og mangarar við Breiðafjörð opnaði í Norska húsinu síðastliðinn laugardag, 16. maí. Breiðafjörður hefur ávallt verið matarkista, ríkur af fugli, fiski, sel og öðru sjávarfangi. Breiðfirðingar nutu góðs af hlunnindum eins og sölvum, eggjum og dúni. Svo var treyst á landbúnað og víða gott undir bú. Byggð var því trúlega allmikil lengst af við fjörðinn og samfelld þrátt fyrir áföll sem á þjóðinni dundu.
Snemma á 14. öld breyttist verslun á Íslandi og tók skreið við af vaðmáli sem aðalútflutningsvara þjóðarinnar. Næstu aldir flykktust kaupmenn víðsvegar að úr Evrópu í Breiðafjörðinn til að kaupa skreiðina af Íslendingum og Englendingar og Þjóðverjar börðust blóðugum sjóorrustum um skreiðarverslunina við breiðfirska kaupmenn. Landsmenn fengu einnig fjölbreyttari, betri og ódýrari vöru en fyrrum, s.s. mjöl, timbur, klæði, brennivín og hunang. Á þessari sýningu er fjallað um sögu viðskipta og verslunar erlendra kaupmanna við Breiðafjörð og samskipti þeirra við valdafólk á svæðinu á árunum 1300-1700. Sýningin er sjálfstæð og er handrit hennar unnið af Valgerði Óskarsdóttur þjóðfræðingi. Sýningin er hluti af stærra rannsóknarverkefni, Sögu Breiðafjarðar sem unnið er að við Háskóla Íslands.
Sýningin markar upphaf sumaropnunar Norska hússins en það er nú opið frá kl. 11-18 alla daga til 31. ágúst og mun þessi sýning standa til sumarloka.

sp@anok.is