Norðurljósahátíðin nálgast

Í kvöld, fimmtudag, hefst Norðurljósahátíðin í Stykkishólmi þegar Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri, setur hana á opnunarhátíð í Stykkishólmskirkju. Hátíðin er menningarhátíð sem haldin er á tveggja ára fresti og verður hún nú dagana 20.-23. október.

Ýmislegar uppákomur hafa verið á síðustu hátíðum s.s. myndlistarsýningar, tónleikar, upplestrar og margt fleira. Megnið af þeim sem koma fram hafa tengingu við Hólminn og er þetta liður í því að leyfa bæjarbúum og öðrum að njóta þess sem menningarlífið hefur upp á að bjóða.

Í ár verður mikið um að vera fyrir bæði unga sem aldna. Börn úr leik- og grunnskóla munu lýsa upp skammdegið með kertaluktum sem þau hafa verið að skreyta, tónlist verður í hávegum höfð þar sem m.a. koma fram nemendur tónlistarskólans, karlakór, kirkjukór, söngsveitir, salsaband auk annarra, innandyra sem utandyra. Þá verða ýmsar ljósmyndasýningar með nýjum og gömlum myndum. Boðið verður upp á ratleik þar sem reynt verður á þekkingu keppenda á Stykkishólmi. Einnig verða söfnin opin og matsölustaðir verða með uppákomur. Er þetta aðeins brot af því sem verður á boðstólnum.

Fyrsta Norðurljósahátíðin var haldin árið 2010. Bæjarstjórn Stykkishólms fól Safna- og menningarmálanefnd að stuðla að menningarhátíð að vetri sem myndi festa sig í sessi í bæjarlífinu. Markmiðið var að hafa langa helgi þar sem menningarlífinu væri hampað og Hólmarar skemmtu Hólmurum, þar sem öllum er velkomið að mæta. Stefnt er að því að atburðirnir standi undir sér og segir Þórunn Sigþórsdóttir, skipuleggjandi hátíðarinnar í ár, að það sé ómetanlegt hversu margir eru tilbúnir að vinna óeigingjarnt starf í tengslum við hátíðina.