Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Nótan í Stykkishólmi

Nótan 1

Nótan 3S.l. laugardag var Nótan uppskeruhátíð tónlistarskólanna á Vesturlandi og Vestfjörðum haldin hér í Stykkishólmi. Þetta er í sjö-unda sinn sem Nótan er haldin og er tilgangurinn að styrkja ungt tónlistarfólk til listsköpunar til þess að efla listir, menntun og menningu í samfélaginu. Að þessu sinni voru 24 tónlistaratriði á dagskrá frá svæðinu en veðrið setti strik í reikninginn og fækkaði atriðum niður í 16 alls. Atriðin voru fjölbreytt og nemendur af öllum stigum tónlistarnáms sem fluttu þau. 10 atriði voru verðlaunuð sérstaklega en allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna. Tónlistarskóli Stykkishólms átti fjögur atriði á þessum tónleikum og 3 af þeim 10 sem fengu sérstaka viðurkenningu. Atriðin þrjú sem áfram fara í Nótuna í Hörpunni þann 10. apríl n.k. eru Söngur Sólveigar eftir Grieg flutt af Sigurði Guðmundssyni úr Stykkishólmi, píanókonsert eftir og flutt af Oliver Rähni frá Tónlistarskóla Bolungarvíkur og Harry Potter svíta fyrir tvö píanó eftir J.Williams flutt af Kristínu Hörpu Jónsdóttur og Pétri Erni Svavarssyni frá Tónlistarskóla Ísafjarðar.

frettir@snaefellingar.is