Orgelsaga í Stykkishólmskirkju

orgelhusAllir kannast við sögur og ævintýri Maxa Músar sem býr í Hörpunni í Reykjavík. Maxi hefur heldur betur slegið í gegn langt út fyrir landssteinana en ævintýri á borð við Maxa, Pétur og úlfinn, Tobba túbu og fleiri þar sem tónlistin spilar sannarlega stórt hlutverk á alltaf upp á pallborðið hjá börnum og fullorðnum hverju sinni.

Nú hefur nýtt ævintýri litið dagsins ljós sem fellur einnig undir þennann flokk og heitir „Lítil saga úr orgelhúsi“ en þar fá orgelpípur mál og segja sögur. Í fyrra kom út samnefnd bók ásamt geisladiski þar sem Fanney Sizemore myndskreytir ævintýri eftir Guðnýju Einarsdóttur organista Hjallakirkju í Kópavogi og Michael Jón Clarke semur tónlistina á geisladisknum sem Guðný flytur.

Í kjölfar útgáfunnar var ævintýrið flutt í kirkjum þar sem Bergþór Pálsson söngvari kom einnig að flutningnum í hlutverki sögumanns. Sagan hefur fengið mjög fína dóma og hafa viðburðirnir, þar sem sagan er flutt, verið vel sóttir.

Listvinafélag Stykkishólmskirkju býður upp á tónleika með ævintýrinu um orgelpípurnar laugardaginn 9. apríl kl. 13 í Stykkishólmskirkju. Þar munu Guðný, Fanney og Bergþór flytja ævintýrið á orgel kirkjunnar, sýna myndir samhliða og spjalla við gesti.

Allir eru hjartanlega velkomnir og enginn aðgangseyrir.