Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Rakubrennsla – eldsmíði

DSC_0227Helgina 18. – 19. júlí verður heit helgi í Leir7 í Stykkishólmi. Þá munu valinkunnir keramikerar og eldsmiðir kynda ofna og smiðjur og brenna og smíða gripi úr leir og járni. Bæði leirinn og járnið þurfa nauðsynlega tengingu við eld og hita til að hægt sé að smíða úr þeim gripi og hafa þær aðferðir sem hér eru notaðar fylgt manninum í aldir. Sumarið 2014 brenndum við á sama hátt og nú en þá var i framhaldi sett upp sýning á rakubrenndum verkum i sýningarrými Leir7. Nú er aftur á móti ætlunin að skapa hér markaðsstemmningu þar sem einfaldir, spennandi gripir verða seldir beint af eldinum.
Leir7 er við Aðalgötu 20 í Stykkishólmi. Þar eru ágætar aðstæður til að fylgjast með því hvernig gripirnir taka á sig form og liti í eldinum. Allir eru velkomnir að fylgjast með.
Sumarsýningin Núningur – Snúningur stendur nú yfir i Leir7. Þar kemur keramik við sögu á fjölbreyttan hátt en 8 myndlistamenn sýna hver fyrir sig verk sem byggja á einum keramikhlut. Þetta er áhugaverður vinkill en sýningarstjóri er Helgi Þorgils Friðjónsson. Sýningin stendur fram í september. Allar frekari upplýsingar eru á facebook leir7.
Sigríður Erla Guðmundsdóttir Leir 7