Miðvikudagur , 23. janúar 2019

Reitarvegur hinn nýji

S.l. fimmtudag var haldinn fundur á Ráðhúsloftinu um skipulagsmál á Reitarvegi.  Kynnt var vinna vinnuhóps sem unnið hefur þetta ár að tillögum um skipulag á Reitarvegi.  Sigurbjartur Loftsson byggingarfulltrúi kynnti möguleika og þær umræður sem átt höfðu sér stað um þá.  Myndum af svæðinu var varpað upp á vegg.  Mæting var góð á fundinn en hagsmunaðilar við Reitarveg höfðu verið boðaðir bréflega á fundinn en allir bæjarbúar velkomnir og voru auglýsingar birtar í þeim tilgangi.

Í ljós kom að hugmyndir um svæðið eru margskonar.  Tillögur nefndarinnar um að uppbygging á iðnaðarhúsnæði í smáum einingum á Reitarveginum féllu vel í kramið hjá fundargestum.  Þessar skipulagseiningar henta t.d. vel fyrir smábátasjómennsku.  Girðingar á lóðum í kringum húsnæði sem þarna er, þannig að skerma mætti af tilheyrandi verðmæti/drasl innan lóðar á snyrtilegan hátt mættu einnig skilningi.  Þeirri hugmynd hvort gera ætti löndunarbryggju við fiskmarkaðinn var kastað  á milli og sýndist sitt hverjum.  Íbúar við Lágholt og Sundabakka voru ekki hrifnir af hugmyndum um fjölgun stórra bygginga og aukinnar bílaumferðar, þar sem þarna væri sólarhringsrekstur í gangi og færi ekkert sérstaklega vel með íbúðabyggðinni sem væri þétt upp við.  Tillaga um nýja vegtengingu frá Silfurgötu og yfir höfðann jafnvel alla leið út í Landey og hótel eða íbúabyggð ofan á Höfðanum þóttu djarfar og svo mætti lengi telja.

Fundurinn var því um meira en bara skipulag á Reitarvegi.  Þetta svæði tengist Sundabakka, Lágholti og Silfurgötu a.m.k. ef fara á í vegalagningu og byggingar stórra iðnaðarhússeininga í túnfótinn hjá íbúum.

Skipulagsmál á Reitarvegi eru aðkallandi verkefni og huga þarf vel að öllum hliðum þess.  Á fundinum var kallað eftir hugmyndum bæjarbúa sem safnað yrði saman og teknar síðar meir inn í skipulagsvinnuna.  Reikna má með að ferlið geti tekið um tvö ár, eða lengur í vinnslu.  Voru fundarmenn og bæjarbúar hvattir til að setja sig í samband við byggingarfulltrúa og leggja fram hugmyndir í þessa vinnu.  Þegar blaðið fór í prentun voru þegar komnar fram hugmyndir sem gætu kollvarpað þessu öllu skv. upplýsingum fá bygginarfulltrúa.

Til gamans má rifja upp efni sem rak á fjörur okkar hér um árið þegar skrifstofur blaðsins voru á Reitarvegi og fjallað var um málefnið á síðum blaðsins.  Í Minningabók Guðmundar Eggertz sýslumanns sem gefin var út fyrir rúmri hálfri öld, árið 1952 segir frá Guðmundi sem fluttist til Stykkishólms sumarið 1906, bjó hér í sex ár og var settur sýslumaður 1908.  Í bókinni fjallar hann m.a. um Stykkishólm og er eftirfarandi tilvitnun tekin beint úr bókinni:

„Það mun ýkjulaust að Stykkishólmur er fegursta kauptún landsins.  Húsin í þorpinu standa á víð og dreif á tveim hæðum. …

Fjöldi eyja liggja í nánd við kauptúnið, sumar aðeins hundruð faðma frá landi, svo sem Súgandisey, Stakkey og Landey, er ganga má út í um fjöru.  Hafskipabryggjan liggur við lítinn hólma er heitir Stykkið, og er trébrú úr kauptúninu út í hólmann.

Þá er fjallasýnin nærri því eins fögur og úr höfuðstaðnum.  Þegar íbúatalan í Stykkishólmi hefur náð fimmtíu þúsundum, verða næstu eyjar tengdar kaupstaðnum með breiðum skrautlýstum brúm.  Og á Landeynni, sem er löng og stór eyja, verða breiðar steyptar götur með stórhýsum til beggja handa, sem heildsalar og milljónerar hafa komið sér upp.  Á kvöldin verður þarna mikil ljósadýrð, engum til ama nema unga fólkinu, sem rær sér til ánægju um eyjasundin á feneyjargondólum við dillandi hljóðfæraslátt.  Vitanlega hefur þá verið gerð út sendinefnd til Feneyja til þess að útvega og kynna sér rekstur á hinum frægu góndólum, rétt eins og við nú á tímum sendum menn til Englands til að sjá um byggingu á nýjum togara.

Ekkert kauptún landsins, annað en Stykkishólmur, getur,  vegna landslags og staðhátta, látið þennan framtíðar-gondóladraum rætast.  …  Þessi draumur rætist ekki fyrr en árið 2050.  Þá verður nú gaman að vera ungur sýslumaður í Stykkishólmi!“

Ígildi gondólans sigldi hér um sundin undir hljóðfæraslætti s.l. vor svo ekki eru þessar hugmyndir svo langsóttar þó enn séu nokkur ár til stefnu!