Ríkið tekur meira en það gefur

Á nýafstöðnum haustfundi Samtaka sveitarfélaga á Vestur-landi kynnti SSV-Þróun og ráðgjöf nýjan hagvísir um opinber störf á Vesturlandi. Þar kemur fram að opinber störf á Vesturlandi voru 818,56 árið 2015 en 841,25 árið 2013. Á þessu má sjá að störfum hefur fækkað um 22,69, eða 2,7%, á tveimur árum á sama tíma og íbúum hefur fjölgað úr 15.381 í 15.566, eða um 1,2%. Árið 2013 voru þetta 54,7 störf á hverja þúsund íbúa en árið 2015 voru þau 52,6 og hefur störfum því fækkað um 3,9% að þessu leyti á tveimur árum. Hugtakið ríkisfjárjöfnuður er kynnt í skýrslunni það er mismunur á sköttum og öðru opinberu fjármagni sem greitt er til opinberra aðila utan byggðarlags að frádregnum opinberum tekjutilfærslum, styrkjum og öðru opinberu fé sem ráðstafað er með beinum eða óbeinum hætti innan sama byggðarlags. Vísað er í úttekt frá 2013 þar sem árið 2011 er tekið sem dæmi en þá var ríkisfjárjöfnuður Vesturlands neikvæður. Ríkissjóður hafði 24,3 ma.kr. í tekjur á Vesturlandi en ráðstafaði þar 16,8 ma.kr. eða um 70% af því fjármagni sem innheimtist þar.
Í tölum um þróun opinberra starfa á Vesturlandi stingur þróunin í Stykkishólmi í augun. Tölur um fjölda starfa eru frá því í ársbyrjun og því ljóst að þær eru ekki réttar við næstu áramót. Til að mynda hafa störf hjá Rarik flust héðan á árinu og þau þrjú störf hjá Samgöngustofu sem koma fram í hagvísinum eru orðin 2 nú, eftir að síðast var skorið niður þar á bæ. Útreikningurinn í þessum hagvísi sem leiðir til fækkunar um 6,6 í Stykkishólmi hefur því breyst bænum í óhag í 9,6. Athygli vekur að 2% opinberra starfa í Stykkishólmi eru unnin af fólki búsettu utan Vesturlands. Samtals voru stöðugildin árið 2013 102,52 en 95,86 m.v. þær tölur sem lágu fyrir í ársbyrjun.
Á hverja 1000 íbúa á Vesturlandi eru 55 opinber störf á móti 69 á höfuðborgarsvæðinu.
graf
Í könnuninni sem liggur til grundvallar þessum tölum er einnig spurt um launakjör. Fram kemur að hjá ríkinu hafi heildarlaun lækkað um 10% árin 2005-2013 en hækkuðu um 1,8% milli áranna 2013-2014. Hjá sveitarfélögunum hækkuðu heildarlaunin um 8% á milli áranna 2005-2013 og um 10% á milli áranna 2013 og 2014. Störfum hjá ríkinu fjölgaði um rúm 150 á milli áranna 2011 – 2014 á landinu en ekki liggur fyrir hvar á landinu þau höfnuðu. Ekkert bendir þó til þess að Vesturland hafi notið þess, þar sem þeim fækkaði um tæp 23 á milli áranna 2013 og 2015.

 

sp@anok.is