Rökkurdagar hefjast í dag

Menningarhátíðin Rökkurdagar hefst í dag, miðvikudag, og stendur til laugardagsins 22. október. Er þetta í 15. sinn sem hátíðin er haldin. Breyting er á fyrirkomulagi Rökkurdaga í ár, en nú er hún liður í Opnum október, sameiginlegu verkefni sveitarfélaga Snæfellsness. Opinn október, undir stjórn Svæðisgarðs Snæfellsness, er haldinn til að vekja Snæfellinga til vitundar um nálægð sveitarfélaganna og hvetja þá til að sækja viðburði nágrannasveitarfélaga og stuðla þannig að meiri samskiptum á milli þeirra.

Fjölbreytt dagskrá er á Rökkurdögum þar sem lifandi tónlist spilar stóran sess auk galdra, gríns o.fl.

Dagarnir hefjast á því að ljósmyndavefurinn Bæringsstofa.is verður opnaður. Fjölskylda Bærings Cecilssonar, ljósmyndara, færði Grundarfjarðarbæ myndasafn hans að gjöf eftir andlát hans. Til varðveislu var myndunum komið fyrir í Sögumiðstöðinni og Bæringsstofa opnuð. Myndirnar skipta tugþúsundum og ná yfir meira en 60 ára tímabil í sögu Grundarfjarðar. Bæjarbúar hafa unnið hörðum höndum að koma myndunum á stafrænt form sem er grundvöllur þess að heimasíðan verður opnuð. Jóhann Ísberg, ljósmyndari og vefhönnuður sá um hönnun vefsins og mun hann halda áfram að vinna við þróun og uppbyggingu á vefnum. Vefurinn verður opnaður kl. 18:00 í Bæringsstofu.

Dagskráin heldur svo áfram næstu daga þar sem má finna ýmsa viðburði s.s. uppistandsýningu Ara Eldjárns og Björns Braga: Á tæpasta vaði, Tónleika með Jönu Maríu Guðmundsdóttur í Grundarfjarðarkirkju, galdrasýningu Einars Mikaels töframanns, Rökkurmótið í Skrafli, bíósýningar í Bæringsstofu og margt fleira við allra hæfi.

Dagskrá Rökkurdaga er hér!