Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Samgönguáætlun Vesturlands

Á fundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi sem haldinn var á Hótel Stykkishólmi 5. október sl. kenndi ýmissa grasa. Gísli Gíslason, formaður vinnuhóps um samgönguáætlun Vesturlands fyrir árin 2017-2029, lagði fram tillögu um samgönguáætlun.

Tekið er fram í tillögunum að sveitarfélög á Vesturlandi verði að vera samstíga í samgönguáætlunum sínum. Í dag hafa vegir að miklu leiti leyst flugvélar af hólmi og hafnarmál hafi mikið breyst. Þrátt fyrir aukna umferð á stofnvegakerfi, þá sér í lagi vegna aukinnar umferðar ferðamanna, eru framlög til vegagerðar undir væntingum. Það virðist þó ætla að lagast sé mið tekið af komandi áætlunum. Að meðaltali ferðast um 6.500-7.000 bílar inn og út af Vesturlandi á degi hverjum og er því brýnt að stofnvegakerfið geti staðið undir því. Ekki má bíða eftir að slysatíðni aukist til að eitthvað sé gert í málunum. Er slysatíðnin á svæðinu sambærileg þeirri á Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut. Undanfarið hefur Skógarstrandarvegur verið mikið í fréttum vegna fjölda slysa. Er vegurinn illfær en engu að síður fjölfarinn. Einkum af ferðamönnum sem eru óvanir slíkum aðstæðum. Gísli segir að vegurinn hafi ekki fylgt þróun vegamála og brýnt sé að lagfæra hann sem fyrst.

Í áætlun þarf líka að taka tillit til tækninýjunga, þá sér í lagi vistvænna bíla. Hleðslustöðvar fyrir rafbíla eru vandfundnar utan höfuðborgarsvæðis.

Rætt var um hafnamál á fundinum og sameiningu hafna á Snæfellsnesi. Voru markmiðin þau að komast inn í leiðarkerfi skipafélaga og hafa aðstöðu til útflutnings á fiski beint frá Snæfellsnesi. Einnig eru samliggjandi þættir milli hafna sem nýta má betur sameiginlega eins og aðkoma skemmtiferðaskipa.

Á Vesturlandi eru sjö flugvellir og allir þeirra utan grunnnets. Nú þarf að ákveða hvort halda eigi þeim lendingarhæfum.

Ein tillaga hópsins snýr að fjarskiptamálum og er hún svo hvort hægt sé að gera einn útboðspakka fyrir allt Vesturland til að koma ljósleiðaratengingu á allt svæðið. Eins og staðan er núna deilir fjarskiptasjóður út mörgum verkefnum í senn. Verst er tengingin á sunnanverðu Snæfellsnesi og í Dölum. Gert er ráð fyrir því að kostnaður við lagningu ljósleiðara á Vesturlandi kosti um 1 milljarð króna, en samtals 5,5 milljarða á landinu öllu. Vinnuhópurinn leggur til að búið verði að ljósleiðaravæða Vesturland árið 2020 og að Dalirnir og sunnanvert Snæfellsnes hafi forgang.

Að lokum er áréttað að allar tillögurnar eru háðar afstöðu sveitarfélaga, Vegargerðar, Alþingis og fleiri sem að málum koma og mikilvægt sé að sveitarfélög á Vesturlandi hafi góða heildarsýn á framtíðina. Ein skýrsla dugar ekki til að knýja fram breytingar, þetta eru mál sem stöðugt þarf að vinna að.