Samstöðufundur kennara

Kennarar á samstöðufundi
Kennarar á samstöðufundi

Kennarar í Grunnskólanum í Stykkishólmi héldu áfram aðgerðum sínum í kjarabaráttu kennara þriðjudaginn 22. nóvember sl.

Samstöðufundur var haldinn í Bakaríinu eftir að kennarar gengu út af vinnustað sínum kl. 13:30. Var það gert víða um land.

Ekki var allri kennslu lokið þann daginn svo einhver börn fóru fyrr heim.

Enn sem komið er eru ekki neinar uppsagnir á borðinu hjá kennurum hér í bæ, en kennarar hafa verið samningslausir síðan í sumar. Samkvæmt Nútímanum.is virðast uppsagnir kennara aðallega tengjast tveimur skólum í Reykjavík: Dalsskóla og Seljaskóla, en um 30 uppsagnir hafa borist Reykjavíkurborg síðastliðinn mánuðinn.

Á fundinum fóru kennarar yfir stöðu mála og ræddu sín mál. Voru þau sammála um að það væri áhyggjuefni hvernig ung kynslóð lítur á kennarastéttina, þau hreinlega fái ekki skilið hvernig fólk sé tilbúið að leggja á sig fimm ára háskólanám fyrir kennsluréttindi.