Sirkus á Snæfellsnesi

Um og eftir næstu helgi verður Sirkus á ferðinni á Snæfellsnesi. Þarna er á ferðinni einstakur listviðburður þegar alþjóðlegur hópur sirkuslistamanna mætir og setur upp verkið Melodic Objects. Verkið er samspil listamanna og tónlistarmanns sem flytur lifandi tónlist í verkinu. Hópurinn hefur ferðast um víða veröld til sýninga og í honum eru þrír af fremstu djögglerum (e. Jugglers) í heiminum í dag. Hópurinn hafði sjálfur frumkvæðið að því að heimsækja Vesturland og kemur fram í Frystiklefanum á föstudeginum kl.20 og í Vatnasafninu á þriðjudeginum kl. 19. Er þetta mikill hvalreki fyrir menningarlífið á svæðinu og mikið gleðiefni að hópur af þessum mælikvarða sækist eftir því að koma hingað vestur.