Sjómannadagur í Stykkishólmi

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur víða um land s.l. helgi og í Stykkishólmi á Sjómannadaginn sjálfan.  Sjómennirnir Páll Guðmundsson og Henry Ólafsson voru heiðraðir við Sjómannamessu í Stykkishólmskirkju.  Lúðrasveit Stykkishólms marseraði frá Tónlistarskóla niður á hafnarsvæðið í dýrindis veðurblíðu og tóku hátíðahöld þá við með ýmsum kappraunum á milli skipsáhafna.  Í upphafi var vígt minnismerki við höfnina eftir Pál Guðmundsson frá Húsafelli til minningar um skipverja á mótorbátnum Blika frá Stykkishólmi sem fórst árið 1924.  Það voru afkomendur Sigvalda Valentínussonar skipstjóra sem færðu Stykkishólmshöfn minnismerkið.

Meðfylgjandi eru myndir frá vígslunni og viðburðum Sjómannadagsins í Stykkishólmi.

Ávarp Sturlu Böðvarssonar bæjarstjóra við vígslu minnismerkisins:

Ávarp þegar Minnisvarði um skipverja af mótorbátnum Blika frá Stykkishólmi var afhjúpaður.

Ágætu gestir.
Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með Sjómannadaginn.
Við erum hér viðstödd einstakan viðburð og vil ég í nafni Stykkishólmshafnar þakka afkomendum Sigvalda Valentínussonar skipstjóra á bátnum Blika frá Stykkishólmi fyrir þá ræktarsemi sem sýnd er minningunni um áhöfnina sem lagði á djúpið 28. Janúar 1924 en átti ekki afturkvæmt hingað í skjólið við Stykkið sem Súgandisey skapar.
Minningu þeirra sjö skipverja sem fórust með Blika er mikill sómi sýndur með því að hér er risinn minnisvarði sem er mótaður af listamanninum Páli Guðmundssyni frá Húsafelli. Listaverkið og minningin sem það dregur fram mun verða ævarandi áminning um þær hættur sem siglingum og sjósókn fylgja við strendur landsins.
Sjóslysið þegar Bliki fórst með allri áhöfn hefur verið mikið áfall fyrir þá 600 íbúa sem bjuggu hér árið 1924.
Íbúar í Stykkishólmi voru á þessum tíma að fást við afleiðingar samdráttar í atvinnulífinu sem hafði alvarleg og neikvæð áhrif á afkomu heimilanna og bæjarlífið. Á árunum 1920 til 1930 fækkaði íbúum hér úr 700 í um 500 sem var mikið högg þessu samfélagi. Og heimskreppan var ekki langt undan.
Stykkishólmshöfn er einstök frá náttúrunnar hendi og um höfnina fara á hverju ári þúsundir ferðamanna sem njóta þess að ferðast um Snæfellsnesið eða sigla um Breiðafjörðinn til þess að njóta fegurðar sem vissulega er til staðar. Það munu því margir eiga eftir að dást að þessum glæsilega minnisvarða og far með þessa myndrænu minningu með sér. Minningu um sjómennina sjö og fjölskyldur þeirra sem er greipt af listamanninum í steininn sem var sóttur alla leið á Kaldadal fyrir ofan Húsafell, sem er á sinn hátt táknrænt.
Um leið og ég þakka framtakið, sem birtist okkur hér í listaverki sem er bæjarprýði hér við Stykkishólmshöfn, óska ég íslenskum sjómönnum heilla á ferðum þeirra um hafið. Og ég þakka ættingjum Sigvalda Valentínussonar skipstjóra fyrir að velja höfnina okkar til þess að geyma þá minningu afkomendanna sem hefur vakað með fjölskyldunni öll þau ár sem liðin eru frá því Bliki hvarf í Breiðafjörðinn. Það verður nú hlutverk okkar heimamanna í nafni Stykkishólmshafnar að sjá til þess, að minnisvarðanum verði allur sá sómi sýndur sem við á. Ég vil að lokum þakka Sjómannadagsráði fyrir að skipuleggja þessa stund hér við höfnina í tengslum við hátíðarhöld Sjómannadagsins.