Snilldarplan

img_4998
Anna Katrín Einarsdóttir frá Stjórnstöð ferðamála, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir frá Ferðamálastofu og Tom Buncle.

Varla er meira um rætt þessa dagana, að afloknu annasamasta sumri í ferðaþjónustu á Íslandi, hvernig Íslendingum og ferða-mönnum hefur gengið að verða samferða um landið það sem af er. Skrif um ferðaþjónsustu og ferðamenn fylla marga metra á skjám landsmanna og skiptar skoðanir eru eins og gengur. Því er þó ekki að neita að ferðaþjónustan hefur stökkbreyst s.l. 12 mánuði og er orðinn ein af stærstu atvinnugreinum landsins. Heimafólk hvarvetna um landið hefur ekki farið varhluta af aukinni umferð og ljóst má vera að verulega þarf að bæta úr svo ekki fari illa. Hér á Snæfellsnesi hefur umferð ferðamanna stóraukist á sjó og landi. Mörgum heimamönnum er um og ó, þar sem náttúran ber þess ótvíræð merki að maðurinn er nálægt.

Á fundi sem haldinn var um ferðaþjónustumál í Grundarfirði í síðutsu viku voru þessi mál rædd fram og til baka með fulltrúum frá Stjórnstöð ferðamála og Ferðamálastofu. Með þeim í för var skoskur ráðgjafi sem unnið hefur vítt og breitt um heiminn að gerð stefnumarkandi stjórnunaráætlana. Upp á ensku heitir þetta fyrirbæri Destination Management Plans og stuðlar að áætlanagerð en er um leið verkfæri til að vinna að uppbyggingu í ferðamannaiðnaðinum. Fjórtán fundir verða haldnir víða um landið til að hitta heimamenn og ræða málin. Mikill þungi er lagður í verkefnið sem er eitt stærsta samhæfða þróunarverkefnið sem ráðist hefur verið í hér á landi.

Í máli skoska ráðgjafans Tom Buncle kom fram nauðsyn þess að áætla til að minnsta kosti fimm ára í senn og taka yrði inn í þætti eins umhverfismál, viðskiptahætti, gesti og síðast en ekki síst íbúa svæðis. Þannig gæti ferðamannaiðnaður þróast á ábyrgan hátt. Einnig væri mikilvægt að skilgreina þau svæði sem opin ættu að vera fyrir ferðamönnum, vitneskja um óskir og þarfir þeirra sem reka ferðaþjónustu eða búa á svæðinu væri einnig mjög mikilvæg.
Vangaveltur um ferðaþjónustu framtíðarinnar fóru einnig fram og hvað það væri sem bæri erlenda ferðamenn hingað til Íslands. Það sem Tom lagði þunga áherslu á var að samskipti á milli væru eins góð og hugast gæti og að hlúa yrði sérlega vel að þeim þætti.

Fram kom í umræðum að Snæfellsnes sé langt komið í innri málum og einna lengst af tilteknum svæðum á landinu með svæðisskipulagi, svæðisgarði, umhverfisvottun og fleiru. Öll sú vinna mun nýtast mjög vel til þessarar áætlunargerðar og að þessu leiti er Snæfellsnes mikið fyrirmyndarsvæði og kemur sterklega til álita sem það svæði sem færi fyrst af stað í þessa vinnu. Hægt verður að nálgast glærur og annað kynnignarefni á vef Stjórnstöðvar ferðamála um miðjan október.

am/frettir@snaefellingar.is