Spaghettí, hakk, marengsar og myndlist

Eins og fram hefur komið í Stykkishólms-Póstinum þá hafa staðið yfir myndlistarsýningar í safnaðarheimlili Stykkishólms-kirkju í sumar.
Haraldur Jónsson sýndi frá 17. júní til ágústloka og þá tók við svissneska listakonan Maja Thommen. Maja sýnir verk sem unnin eru út frá náttúru Vesturlands undir heitinu SWIM! – Saga árinnar. Þetta er fyrsta sýning Maju á Íslandi en hér hefur hún dvalið nokkrum sinnum í lengri tíma við listsköpun. Nýlega var afhjúpað stórt verk eftir hana á Hótel Rjúkanda við Vegamót og má glöggt sjá tengsl þess verks við verkin á sýningunni í Stykkishólmskirkju.

Sýningin er opin út september daglega frá kl. 17-19 og allir velkomnir og enginn aðgangs-eyrir. Í síðustu viku heimsótti 4.bekkur sýninguna ásamt þeim Gunnari Gunnarssyni kennara og Sigurborgu Leifsdóttur stuðningsfulltrúa. Krakkarnir voru mjög áhugasamir um verkin á sýningunni og voru til fyrirmyndar.
Rætt var um vatn í ám, sjó, fjöllum og í skýjunum – tungumál, mat og margt, margt fleira. Umræðurnar snérust þó frá upphafi til enda um sýninguna og verkin.