Stelpur rokka (KÞBAVD)

Dagana 3. – 9. september n.k. mun Tónsmiðja KÍTON (kvenna í tónlist) fara fram í Stykkishólmi en þá munu sex ólíkar tónlistarkonur dvelja hér í vinnubúðum og vinna saman í pörum við að semja tónlist og texta yfir vikuna. Afrakstur tónsmiðjunnar verður svo fluttur á tónleikum á Fosshótel Stykkishólmi föstudagskvöldið 8. september, þar sem aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

KÍTÓN var stofnað árið 2012 eftir að í ljós kom að einungis 4% tilnefninga til íslensku tónlistar-verðlaunanna það árið féll í hlut kvenna. Tilgangur félagsins er að
skapa jákvæða umræðu, sam-stöðu og samstarfsvettvang meðal kvenna í tónlist. Í dag eru 250 konur í félaginu þvert á stefnur og störf innan tónlistariðnaðarins.
En af hverju Stykkishólmur?

Harpa Fönn er verkefnastjóri tónsmiðjunnar, tónlistarkona og varaformaður KÍTÓN. Þegar hún er spurð hvers vegna Stykkishólmur hafi orðið fyrir valinu svarar hún: „Í Stykkishólmi búa um 1000 manns, og er þar alla þjónustu að finna, auk þess sem þessi bær er ákaflega fallegur og inspírandi og yndislegt fólk.
Síðast en ekki síst er afar öflugur tónlistarskóli í Stykkishólmi, undir dyggri stjórn Jóhönnu Guðmundsdóttur” segir Harpa. “Við leggjum ríka áherslu á samstarf við heimamenn og að við skiljum e-ð eftir okkur.

Að verkefninu koma til dæmis fjölmargir stuðningsaðilar – Sveitarfélagið, Hótel Egilsen og Fosshótel, Sjávarpakkhúsið, Stykkið og fleiri. Að auki ráðum við local hljóðmenn og ljósmyndara og munum til að mynda heimsækja skólann eða leikskólann, svo e-ð sé nefnt.
Það er okkur mikilvægt að styðja við framtak sem heimamenn hafa nú þegar í skapandi geiranum, og þar er sko af nógu að taka í Stykkishólmi!” segir Harpa.
Þáttakendur í ár eru tónlistarkonurnar: Erla Stefánsdóttir, Margrét G. Thoroddsen, Myrra Rós Þrastardóttir, Ingibjörg Fríða Helgadóttir, Jana María Guðmundsdóttir og Jelena Ciric.

„Það verður spennandi að sjá hvað gerist í tónsmiðjunni, enda ólíkar tónlistarkonur á ferð og ekki hægt að spá fyrir um hvernig samstarfið verður, en það verður án efa áhugavert að fylgjast með framvindunni og upplifa tengingarnar á milli kvennanna, en engin þeirra þekkist fyrir. Af þessari ástæðu verður allt ferlið kvikmyndað og mun heimildarmynd koma út í vetur.“ segir Harpa.

 

am/frettir@snaefellingar.is