Styrkir í ýmis verkefni á svæðinu

Í síðustu viku voru haldnir kynningarfundir um nýstofnaðan sjóð sem heldur utan um verkefni sóknaráætlunar á Vesturlandi og þ.m.t. Menningarráð og Vaxtarsamning Vesturlands. Sjóðurinn ber nafnið Uppbyggingarsjóður Vesturlands. Hann hefur ekki enn verið stofnaður en stefnt er að því að úthluta fjármunum um miðjan maí. Heildarupphæð úthlutunarfjármagns í ár er 50 milljónir í styrki og 20 milljónir í átaksverkefni. Sjóðurinn úthlutar styrkjum til nýsköpunar í atvinnulífi, menningarmála og stofn og rekstarstyrkja í menningarmálum. 5 manna hópur mun skipa úthlutunarnefnd og heimild er til þess að stofna fagráð.
Safnaráð úthlutaði styrkjum á dögunum og hlaut Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla bæði verkefnisstyrk og rekstrarstyrk, samtals kr. 1.450.000 Verkefnið sem hlaut styrk ber heitið Miðstöðvar og mangarar við Breiðafjörð: Breiðafjörður og Norður‐Atlantshafið 1300‐1700.
Fornminjasjóður útlutaði einnig styrkjum á dögunum og þar fékk Fornleifastofan(Eldstál ehf) styrk til rannsókna á seljabúskap á norðanverðu Snæfellsnesi kr. 1.100.000 4.000.000 styrkur fékkst til björgunarrannsóknar á verminjum Gufuskála og er Lilja Björk Pálsdóttir forsvarsmaður þess verkefnis auk verkefnisins Skönnun veggjarista í Sönghelli á Snæfellsnesi en í það verkefni fengust 400.000 kr.
Bátasafn Breiðafjarðar fékk styrk til skráningar minja og það er Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar – FÁBBR sem fékk 1.000.000 til þess verkefnis.
Framkvæmdaráð Snæfellsness fékk 3 styrki frá Umhverfisráðuneytinu í þessi verkefni:Útbreiðsla ágengra plantna á Snæfellsnesi 500.000, Umhverfisvottun Snæfellsness kr. 500.000 og Burðarplastpokalaust Snæfellsnes kr. 1.000.000

sp@anok.is