Styttist í þorra

12012017-1-4Eftir smá hlé veisluhalda og hátíða er komið að næstu törn. Föstudaginn 20. janúar er bóndadagur og markar hann upphaf þorra. Tíðkast það að konur færi bónda sínum blóm á þeim degi. Vilji menn hins vegar halda í hefðir er vert að benda á þjóðsögur Jóns Árnasonar en þar er útskýrt hvernig bóndi skal bjóða þorra velkominn. Í stuttu máli á bóndi að fara á fætur eldsnemma á fyrsta degi þorra. Á skyrtunni einni saman og í annarri buxnaskálminni átti hann að hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn sinn, draga restina af buxunum á eftir sér og bjóða þorra velkominn. Að lokum skal bjóða nágrannabændum til veislu. Það er einlæg von þess er þetta ritar að lesendur haldi í þessar hefðir á meðan land byggist.

Í dag er þorri boðinn velkominn með þorrablótum sem er ein vinsælasta samkoma hvers sveitarfélags og ómissandi hluti menningarlífs íbúa.

Til fróðleiks má nefna að elstu heimildir um þorrablót nálægt þeirri mynd sem við þekkjum í dag eru frá íslenskum stúdentum í Kaupmannahöfn á ofanverðri 19. öld. Þorrablót lögðust af um tíma en þau sem við þekkjum í dag eru frá árinu 1958 þegar veitingastaðurinn Naustið auglýsti sérstakan þorramatseðil. Hjónafögnuðir sem haldnir höfðu verið í ýmsum byggðarlögum um land allt tóku síðar meir upp svipaðan seðil þar sem boðið var upp á súran, saltaðan og reyktan þorramat svo úr varð þorrablót.