Sungið í Ungverjalandi

Kór Stykkishólmskirkju í Ungverjalandi
Kór Stykkishólmskirkju í Ungverjalandi

Kór Stykkishólmskirkju er ný-kominn heim úr söngferðalagi til Ungverjalands. Ferðin stóð yfir í 10 daga og voru haldnir þrennir tónleikar, sungið í tveim messum auk þess sem lagið var tekið víða um borg og bý. Fyrstu dagana var dvalið í Budapest, höfuðborg Ungverjalands þar sem kórstjórinn tók á móti hópnum og var æft þá daga sem ekki voru tónleikar. Tónleikar í Budapest fóru fram í kirkjum sem Laci kórstjóri hafði tengsl við og voru mjög vel sóttir. Vel var tekið á móti hópnum á báðum stöðum og hitti kórfólk fjölskyldur þeirra hjóna Laci og Esther. Farið var í skoðunarferðir í Budapest undir dyggri leiðsögn Maríönnu og Judith sem voru hópnum til aðstoðar en í ferðalok voru þær orðnir meðlimir í kórnum, sem merki um hversu hópurinn var ánægður með þær.
Að lokinni dvöl í Budapest var haldið upp í sveitir og áð við Balatonvatn. Þaðan var farið í skoðunarferðir og æskuslóðir Laci heimsóttar í bænum Ozora. Þar tók bæjarstjórinn á móti hópnum og sýndi bæinn. Bærinn er þekktur fyrir vel varðveittan kastala og þar hélt kórinn sína lokatónleika í 28 stiga hita. Móttökurnar í Ozora komu við hjartað í kórfélögum, því þrátt fyrir bága stöðu margra þar lögðu þau sig öll fram um að bjóða hópinn velkomin á sinn hátt. Óhætt er að segja að kórinn hafi séð margar hliðar á Ungverjalandi og Ungverjum í þessari ferð og margir höfðu á orði að á Íslandi hefðum við það frekar gott.
sp@anok.is / Ljósmynd: Hörður Karlsson