Þarinn í Breiðafirði vinsæll

thangbrandur
Þangbrandur við Stykkishólmshöfn

Í byrjun vikunnar kom nýtt skip í Stykkishólmshöfn, Þangbrandur I. Bátnum var siglt hingað frá Hollandi þar sem hann var notaður sem sanddæluskip og við lagningu strengja í sjó. Félagsbúið á Miðhrauni 2 er eigandi skipsins sem fyrirætlanir eru um að fari í þangslátt í Breiðafirðinum í sumar. Félagsbúið á Miðhrauni 2 hefur verið að undirbúa slátt og vinnslu á þara s.l. 3 ár. Búið er að koma upp aðstöðu til þurrkunar á þaranum á Miðhrauni og eins og fram kemur hér að ofan þá er skipið í höfn í Stykkishólmi. 3-4 manna áhöfn verður á skipinu og í ljós kemur hvort þær verða ein eða tvær. Gert verður út héðan úr Stykkishólmi og landað hér en aflinn keyrður á Miðhraun.
Í samtali við Bryndísi Guðmunds-dóttur framkvæmdastjóra félags-búsins þá er undirbúningur langt kominn en leyfi eru í vinnslu hjá viðeigandi stofnunum og ráðuneytum. Hinsvegar stefni þau ótrauð á að byrja þangslátt nú í sumar. Þau hyggjast byrja rólega svona meðan allt er að fara í gang en áætlanir gera ráð fyrir því að fullvinnsla þarans verði á Miðhrauni og að þar skapist ný störf m.a. hátæknistörf fyrir háskólamenntað starfsfólk.
Í fyrstu verður sóst eftir stórþara, hrossaþara og jafnvel bóluþangi til vinnslu og úr því verður unnið Alginat bindiefni sem er notað víða í matvælaiðnaði. Reiknað er með að það taki 2 ár að fullvinna ferla og hanna vinnslu og þar til að Alginat verði komið í framleiðslu á Miðhrauni. Fyrst um sinn mun einungis verða þurrkað. Markaði eru þau komin með fyrir Alignat að sögn Bryndísar svo allt er þetta mjög spennandi. Jafnframt tekur hún fram að þau vilji ekki taka mikið heldur gera mikið úr litlu. Allt ferlið verður vottað og unnið og hannað í samráði við ráðgjöf t.d. Hafró og fleiri aðila. Lífræn vottun er í umsóknarferli.
sp@anok.is