Þjóðbúningahátíðin Skotthúfan í Stykkishólmi 17.-19. júlí 2015

skotthufa2-2Ellefta árið er haldin þjóðbúningahátíð í Stykkishólmi. Það var Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla, Norska húsið í Stykkishólmi sem bryddaði upp á þeirri nýjung fyrir 11 árum að hvetja fólk sem átti í fórum sínum þjóðbúning, að klæða sig upp og þiggja kaffi og pönnukökur í Norska húsinu í Stykkishólmi, uppáklætt. Skapaðist strax góð stemning í kringum þennan viðburð og komu gestir víða að uppábúnir. Viðburðurinn hefur í tímans rás vaxið og í fyrra var bryddað upp á því að skíra hann Skotthúfuna og taka heila helgi undir hann. Fleiri hafa komið að undirbúningi hátíðarinnar á undanförnum árum en Norska húsið er nokkurs konar miðstöð hátíðarinnar auk þess sem Vinnustofan Tang & Riis, Gamla kirkjan í Stykkishólmi taka þátt og bjóða upp á viðburði. Í ár kemur Eldfjallasafnið í Stykkishólmi að hátíðinni. Í fyrra var langspilið í forgrunni og mátti skoða langspil mislangt komin í smíði í vinnustofunni og tónlistarmenn fluttu gamla og nýja tónlist á þetta aldna íslenska hljóðfæri í kirkjunni og víðar.
Í ár er sjónum beint að Móðuharðindunum. Sigrún Helgadóttir og Haraldur Sigurðsson munu fjalla um móðuharðindin en saga íslensku búninganna tengist móðuharðindunum beint. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og forstöðumaður Eldfjallasafnsins í Stykkishólmi mun fjalla um Móðuharðindin út frá jarðfræðinni og menningarsögunni og Sigrún Helgadóttir rithöfundur og náttúrufræðingur mun fjalla um tengsl íslenska þjóðbúningsins við Móðuharðindin. Þessir fyrirlestrar verða í Eldfjallafsafninu.
Fríða Björk, þjóðfræðingur, mun fjalla um klæðnað kvenna fyrr á tímum og verður fyrirlestur hennar í gömlu kirkjunni í Stykkishólmi þar sem einnig verður sýning Ljósmyndasafns Stykkishólms og Listvinafélags Stykkishólmskirkju með sama þema.
Í Norska húsinu verður uppáklæddum gestum boðið upp á kaffi og pönnukökur en þar verður einnig Helga Ósk gullsmiður sem sýnir og spjallar við gesti um skartið á búningunum og annað tengt því.
Upphaf hátíðarinnar verður í gömlu kirkjunni í Stykkishólmi þar sem þeir Hugi Jónsson söngvari og Kári Allansson organisti flytja tónlist af nýútkomnum diski sínum Kvöldbæn. Sérstakur gestur þeirra verður Pétur Húni Björnsson tenór, kvæðamaður og þjóðfræðingur.
Kvöldvaka verður á laugardagskvöldið í vinnustofunni þar sem bryddað verður upp á söng, kveðskap og jafnvel sagðar sögur. Hin síunga Heddý frá Stykkishólmi mun flytja gömlu góðu lögin í góðum félagsskap.
sp@anok.is