Þriðjudagur , 22. janúar 2019

Þrjú af tíu bestu hótelum landsins á Snæfellsnesinu og við Breiðafjörð

snaefellsjokullÞað dylst engum að hér á Snæfellsnesi og í Flatey eru úrvals möguleikar til gistingar og það í öllum verðflokkum.  Við getum státað okkur af mjög flottum hótelum eins og Egilsen, Búðum og Flatey.  Það kemur því etv. ekki á óvart að þessi hótel hljóti sérstaka athygli. S.l. fimmtudag birti einn víðlesnasti íslenski ferðaupplýsingavefurinn Guide to Iceland lista yfir tíu bestu hótelin á Íslandi og er afar ánægjulegt að sjá að þar af eru þrjú hótel staðsett á Snæfellsnesinu og við Breiðafjörð en það eru Hótel Egilsen, Hótel Búðir og Hótel Flatey. Það er athyglisvert að það er einungis eitt hótel í Reykjavík á listanum og því er landsbyggðin að koma sterkt inn. 

Ferðmannastraumurinn hefur aukist þétt og jafnt á Íslandi síðastliðin ár og er nú orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum landsins.  Við hér á Snæfellsnesinu höfum ekki farið varhluta af þessari þróun og leggja aðilar í ferðaþjónustu sig alla fram um að veita ferðamönnum góða þjónustu og eftirminnilega upplifun af dvöl sinni á Snæfellsnesinu.

Nýverið hefur Snæfellsnesið verið tilnefnt sem eitt af áhugaverðustu svæðunum að heimsækja fyrir ferðmenn af tveimur virtum og víðlesnum tímaritum eða  Condé Nast Traveller og Lonely Planet og hafa þessi tímarit líka bent á Hótel Egilsen og Hótel Búðir sem góð hótel.  Þetta er mjög góð og mikil auglýsing fyrir Snæfellsnesið einkum þar sem ferðamannastraumurinn hefur að mestu legið um Suðurlandið.

Allar þessar umfjallanir eru vísbending um að aðilar í ferðaþjónustu á Snæfellsnesinu eru að vinna gott starf sem kemur til með að skila auknum fjölda ferðamanna á svæðið jafnt sumar sem vetur.