Tillaga að samstarfi hafna

Á haustþingi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 5. október sl. kynnti Gísli Gíslason tillögu vinnuhóps að samgönguáætlun Vesturlands 2017-2019.

Í tillögunum má m.a. finna áætlanir um framkvæmdir við hafnir á Vesturlandi. Þar er talið skynsamlegt að hafnir á Snæfellsnesi myndi „…verulega aukið samstarf á grundvelli stefnu varðandi hlutverk hafna á svæðinu.”

Stykkishólmshöfn
Stykkishólmshöfn

Nefnir vinnuhópurinn sérstaklega að setja það markmið að auka inn- og útflutning á vöru um hafnirnar og að áhersla verði lögð á skemmtiferðaskip og ferðatengda aðstöðu.

Mikilvægt er fyrir atvinnulíf svæðisins að hafa trausta aðstöðu hafna, segir í tillögu vinnuhópsins, og eru þær einnig uppspretta tækifæra í útgerð, ferðaþjónustu og flutningum.

Aukin starfsemi hefur færst á þau hafnarsvæði þar sem skipafélögin eru með reglulega viðkomu s.s. á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri og Reyðarfirði. Því telur vinnuhópurinn það afar álitlegan kost að hafnirnar á Snæfellsnesi sameinist um svæði þar sem hægt verði að skipa vörum út eða á land.