Töfrar orgelsins

This slideshow requires JavaScript.

Leikskóla- og grunnskólabörn úr Stykkishólmi og Grundarfirði streymdu í Stykkishólmskirkju í gær miðvikudag til að hlusta á ævintýri sem gerist inni í orgelinu í kirkjunni. Þau fylgdust andaktug með sögumanninum Bergþóri Pálssyni segja söguna og fylgdust með myndum úr bókinni „Lítil saga úr orgelhúsi“ auk þess að hlusta á orgelið sem einnig sagði söguna með Bergþóri. Guðný Einarsdóttir organisti í Hjallakirkju í Kópavogi var við orgelið en hún er einnig höfundur sögunnar sem sögð var. Sagan átti erindi til allra krakka því boðskapurinn var sígildur þ.e. hversu mikilvæg vinátta og virðing er í samskiptum fólks.

Á meðfylgjandi mynd sýnir Guðný organisti pínulitla pípu úr pípuorgeli en það vakti mikla kátínu þegar hún blés sjálf í flauturnar til að gefa tóndæmi.

Það var Listvinafélag Stykkishólmskirkju sem bauð börnunum upp á ævintýrið en auk þeirra komu fullorðnir líka – því allir voru velkomnir til að kynnast töfrum orgelsins í Stykkishólmskirkju.

 

frettir@snaefellingar.is