Tölulegar pælingar um kosningar

Nú liggja fyrir úrslit í Alþingiskosningum og byrjar þá alvaran. Síðustu tölur komu að morgni 30. október og voru það tölur úr Norðvesturkjördæmi. Á kjörskrá Norðvesturkjördæmis voru 21.479 en kjörsóknin var 17.444 eða 81,2%. Það voru því 4.035 sem ekki greiddu atkvæði. Það eru fleiri en samanlagðir íbúar Stykkishólms, Grundarfjarðar, Snæfellsbæjar, Helgafellssveitar og Eyja- og Miklaholtshrepps. Í þessum byggðakjörnum, sem telja allt Snæfellsnesið, búa 3.868 manns samkvæmt tölum frá 1. júní sl. Þeir sem hafa aldur til að kjósa eru svo umtalsvert færri, í kringum 2.700-2.800 manns. Það má því segja að það hafi vantað heilt Snæfellsnes á kjörstað og gott betur. Aftur á móti má segja að þeir sem greiddu atkvæði á hverjum stað fyrir sig gefi góða mynd af vilja svæðisins. Rúm 4.000 atkvæði hafa samt mikil áhrif.

Á landsvísu var kjörsóknin 79,2%. 51.311 nýttu ekki rétt sinn til kosninga. Það jafngildir 12,7 sinnum íbúafjölda Snæfellsness.

Norðvesturkjördæmi fær 7 sæti á þingi auk eins jöfnunarþingmanns, alls 8. Skiptist það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 3, Framsókn 2, Vinstri Græn 1, Píratar 1 og Samfylkingin 1 í jöfnunarsæti. Enginn fulltrúi kjördæmisins kemur frá Snæfellsnesi en nokkrir voru í framboði, misofarlega á lista þó.

Athyglisvert var að sjá að á kjörskrá í Stykkishólmi voru 812, eða nákvæmlega jafn margir og í Alþingiskosningum árið 2013. Kjörsóknin var örlítið betri árið 2013 en í ár. Þá kusu 691 sem eru 85%. Í ár voru fjórir af þeim heima svo kjörsóknin var einungis 687 manns sem er 0,4% lægra en árið 2013.