Tónlistardeild LHÍ í heimsókn

img_5033
Gunnar Benediktsson, aðjúnkt við tónlistardeild LHÍ.

„Það er hefð í Listaháskólanum að fyrsta árs nemar í tónlistardeild fari út á land í viku eftir mánaðarveru í skólanum þar sem þau vinna saman að tónlist, kynnast og myndi hópkennd bekkjar.” Segir Gunnar Benediktsson, aðjúnkt við tónlistardeild LHÍ. Þessa dagana hafa staðið yfir stífar æfingar hjá nemendum tónlistardeildar LHÍ í sal Tónlistarskóla Stykkishólms.

Hingað komu þau til að vinna saman að tónlist, semja og spila undir handleiðslu Gunnars. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi ferð er farin í Stykkishólm. „Fyrir 2 árum var hér fjölþjóðlegur hópur frá nokkrum listaháskólum í samstarfi við mastersnemendur. Þá vorum við hér í 10 daga og líkaði afskaplega vel. Þess vegna ákváðum við að koma aftur.”
Gunnar segir að vel hafi verið tekið á móti hópnum og að þau finni vel fyrir því að þau séu velkomin. Nefnir hann sér-staklega Tónlistarskólann og veitingastaði sem þau hafa heimsótt.

Nemendur eru hvattir til að nýta frítíma sinn til að vinna saman að tónlist í hópum. Þau raða sér niður eftir áhugamálum og hafa algjörlega frjálsar hendur þar. Þau spila allt frá Bach upp í djass og popp. Jafnvel vinna þau með spuna og taka innblástur frá umhverfinu. Afrakstur þeirrar vinnu verður kynntur innan hópsins en í kvöld (fimmtudag) er öllum boðið á tónleika í sal Tónlistarskólans kl. 20. Þar munu nemendurnir flytja verk sín sem þau hafa unnið að í sameiningu undir áhrifum umhverfis bæjarins. Jafnvel er von á að nemendur úr Tónlistarskóla Stykkishólms spili með. „Tónlist sem aldrei hefur heyrst og mun aldrei heyrast aftur.” Bætir Gunnar við og vonast til að sjá sem flesta á tónleikum.

 

gsg/frettir@snaefellingar.is