Ungir og aldnir

Mönnun á Dvalarheimili Stykkishólms lítur þokkalega út fram á mitt sumar, kemur fram í fundargerð Stjórn Dvalarheimlisins frá fundi sem haldinn var í byrjun apríl. „Í rekstraryfirliti fyrir janúar og febrúar 2018 kom m.a. fram að tekjur heimilisins voru kr. 27.939.907 meðan að laun og launatengd gjöld námu ein og sér kr. 27.819.024. Kostnaður v. vörukaupa, þjónustukaupa og afskrifta nam kr. 6.209.702.11. Tekjur heimilisins eru því rétt að duga fyrir launum og launatengdum gjöldum. Vel er haldið utan um allan rekstur. Ekki verður hægt að draga úr launakostnaði án þess að skaða starfsemina og þá þjónustu, sem ber að veita heimilisfólki. Rekstarvandinn er því eins og áður hefur komið fram ekki rekstrarlegur heldur tekjulegur. Rekstur eldhússins, sem er staðsett í HVE-Stykkishólmi er haldið sér.“

Öldungaráð fundaði nokkrum dögum seinna og kemur fram í fundargerð þeirra að mikil vöntun sé enn á góðri bifreið til að flytja fólk milli staða, m.a. í dagvistun á dvalarheimilinu. Dagvistun hefur ekki verið vel nýtt undanfarið en til að svo verði með góðum hætti verður að bæta úr þessum þætti. Öldungaráð mælist eindregið til að fenginn verði bíll sem til þess er gerður að flytja fólk í hjólastól. Hugsanlegt gæti verið að samnýta bílinn til annarra verkefna til að nýting hans verði sem best. Þar sem þessi þjónusta er á hendi sveitarfélagsins er mjög brýnt að úr þessu verði bætt.

Góð aðsókn er í það félagsstarf sem fram fer í Setrinu og samvinna milli Aftanskins og grunnskólans hefur verið og áhugi á að halda samstarfi áfram. Félagsstarfið á Dvalarheimilinu er í góðum farvegi þó svo að fleiri karlmenn mættu koma þar inn, en alltaf er eitthvað í gangi nema föstudaga.

Flutningar og framkvæmdir vegna væntanlegra rýma á sjúkrahúsinu voru einnig ræddir og þykir ráðinu hægt ganga með þau mál. Það hefði áhrif á viðhald herbergja þar sem alltaf væri von á flutningum, mætti litlu eyða. Mjög mikilvægt væri að fá plan á næsta kjörtímabili um þessi mál. Öldungaráðið fjallaði einnig um lóð Dvalarheimilisins en mikil þörf er þar á úrbótum, lagfæringum á hellum, fleiri bekkjum auk þess sem mikilvægt væri að bílastæðin verði löguð svo bílar standi láréttir í stæðunum.

Íþróttamannvirkin
Eftir umræður á fundi Íþrótta- og æskulýðsnefndar var niðurstaðan sú að girðing umhverfis íþróttavöll verði fjarlægð. Girðing utan um völlinn er illa farin og kostnaðarsamt að fara í viðgerðir á henni. Allt eftirlitskerfi hefur verið endurnýjað í íþróttamannvirkjum bæjarins. Dælur voru keyptar til að bæta gæði vatnsins í sundlauginni en þær fella út bundna klórinn sem er óæskilegur í vatninu. Auk þess mun þetta bæta nýtingu á klórnum. Umræða um fjölskyldukort í sundlaugina fóru fram á fundinum og óskar nefndin eftir því að reynt verði að koma þessum kortum í gagnið fyrir sumarfrí, sem gæti verið liður í því að fá fjölskyldufólk meira í sundlaugina.

Unga fólkið
Mætingin hefur aðeins minnkað í félagsmiðstöðina sem ekki er óeðlilegt á þessum árstíma. „Húsnæðið er e.t.v. ekki það heppilegasta, það ber ekki mikinn fjölda. Húsnæðið er ágætt til bráðabirgða, mætti gera betur.“ segir í fundargerð nefndarinnar.
Æskulýðs- og íþróttafulltrúi kynnti tilhögun leikjanámskeiða sem boðið verður upp á í sumar. Stefnt er að því að bjóða upp á 4 vikur, þrjár í júní og fyrsta vikan í júlí n.k. sumar. Hugmynd um að finna aðstöðu innandyra fyrir hópinn þegar þannig á stendur, bæði koma til greina íþróttahúsið og grunnskólinn. Ungmennaráð Stykkishólms fundar með reglulegum hætti og möguleikar þess að ráðið fari til Eistlands í haust eru nokkrir. Ungmennaþing verður haldið á Laugum í Sælingsdal fyrir ungmennaráð á Vesturlandi og munu ungmenni frá Stykkishólmi taka þátt í því.

Nefndir Stykkishólmsbæjar eru að klára störf sín fyrir þetta kjörtímabil og hefur íþrótta- og æskulýðsnefnd fundað 26 sinnum á tímabilinu. Nefndin ræddi á síðasta fundi sínum „hvað hún hefði viljað sjá hafa gerst á tímabilinu, en náðist ekki. Nýtt húsnæði sem til stóð að byggja m.a. fyrir félagsmiðstöðin ber fyrst á góma. Það skiptir svo miklu máli, að unglingarnir hafi afdrep sem henti þeim, sem býður þau velkomin og býður upp á almennilega aðstöðu. Þannig hefur málum ekki verið háttað undanfarin ár.“

am/frettir@snaefellingar.is