Miðvikudagur , 20. febrúar 2019

Útskrift Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Ljósm. Tómas Freyr
Ljósm. Tómas Freyr

Þriðjudaginn 20. desember sl. brautskráðust 13 nemendur frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Af félagsfræðibraut brautskráðust þau Andri Már Magnason, Bergdís Rán Jónsdóttir, Jóhanna Kristín Sigurðardóttir, Jórunn Sif Helgadóttir, Lovísa Margrét Kristjánsdóttir, Margrét Hólmfríður Magnúsdóttir og Viktor Marinó Alexandersson. Af náttúrufræðibraut brautskráðust Alexander Rodriguez Hafdísarson, Guðlaug Íris Jóhannsdóttir, Ingvar Örn Kristjánsson og Margrét Olsen. Viðbótarnámi til stúdentsprófs luku Laufey Björg Guðbjörnsdóttir og Kristjana Pétursdóttir.

Athöfnin hófst á því að stórsveit Snæfellsness flutti lag. Sveitin er skipuð nemendum Fjölbrautaskóla Snæfellinga og er jafnan fengin til þess að koma fram við hátíðleg tækifæri, enda stolt skólans.

Skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Hrafnhildur Hallvarðsdóttir brautskráði nemendur og flutti ávarp.

Sólrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari afhenti síðan nemendum viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Sveitarfélögin sem standa að skólanum gáfu viðurkenningarnar auk Arion banka, Landsbankans og Hugvísindadeild Háskóla Íslands

Hæstu einkunn á stúdentsprófi hlaut Margrét Olsen. Hún fékk veglega bókagjöf frá sveitarfélögunum og peningagjöf frá Landsbankanum. Hún fékk einnig viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í stærðfræði, ensku, raungreinum og íslensku. Guðlaug Íris Jóhannsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í viðskiptagreinum og dönsku og Jórunn Sif Helgadóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í spænsku.

María Kúld Heimisdóttir flutti kveðjuræðu fyrir hönd kennara og starfsfólks og Ívar Sindri Karvelsson flutti ræðu fyrir hönd fimm ára stúdenta.

Nýstúdentinn Margrét Olsen hélt kveðjuræðu fyrir hönd nýstúdenta þar sem hún kvaddi skólann og starfsfólk hans.

Að lokum bauð skólameistari gestum í kaffi og kökur.