Verdi Requiem í Stykkishólmskirkju

Sunnudaginn 20. nóvember kl. 17 verður mikið um dýrðir í Stykkishólmskirkju. Óperukórinn í Reykjavík mun þá flytja Verdi Requiem undir stjórn Garðars Cortes. Tónleikarnir eru haldnir til minningar um Jón Stefánsson, orgelleikara og kórstjóra, en hann lést í apríl á þessu ári eftir bílslys í nóvember árið 2015. Komst hann aldrei til meðvitundar eftir slysið. Jón var ötull í kórstarfi og mikill brautryðjandi fyrir bættum messusöng.

Einvalalið einsöngvarara kemur fram á tónleikunum. Það eru þau Þóra Einarsdóttir, Sesselja Kristjánsdóttir, Gissur Páll Gissurarson og Viðar Gunnarsson.

Hér er um heimsklassaviðburð að ræða sem enginn unnandi frábærrar tónlistar ætti að láta framhjá sér fara.

Ágóði tónleikanna rennur í minningasjóð Jóns Stefánssonar sem er í vörslu Listafélags Langholtskirkju. Það er Listvinafélag Stykkishólmskirkju sem stendur fyrir tónleikunum í samstarfi við Óperukórinn í Reykjavík.