Vesturlandið þykir spennandi

Þessi er á Vesturlandi
Þessi er á Vesturlandi

Vesturlandi hefur hlotnast sá heiður að rata á lista CNN yfir bestu staði til að heimsækja árið 2017. Landshlutinn er þar ásamt ekki ómerkari stöðum en Kólumbíu, Bordeux í Frakklandi, Amman í Jórdaníu, Rúanda og Ástralíu svo dæmi séu tekin.

Í rökstuðningi CNN er tekið fram að Reykjavík hafi verið einkar svalur áfangastaður undanfarið en fjöldi ferðamanna sé farinn að taka sinn toll. T.d. sé þar allt morandi í lundabúðum. Þá er SV-hornið troðið af ferðamönnum en þannig sé ekki farið fyrir restinni af landinu, segir í greininni. Tiltölulega nálægt höfuðborgarsvæðinu er Vesturlandið sem bjóði upp á ýmis náttúruundur og þjónustu við ferðamenn. Greinarhöfundur tekur sérstaklega fram eyjarnar á Breiðafirði og „fullkomið landslag Snæfellsness – oft kallað minni útgáfa Íslands” eins og það er orðað í greininni sem áhugaverða staði.

Umferð ferðamanna jókst mikið um Snæfellsnes á síðasta ári og ekkert lát virðist vera á komu þeirra. Það má því gera ráð fyrir enn fleiri ferðamönnum á komandi misserum.